Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Truflanir á farsímasambandi af völdum örbylgjuloftneta

Átaksverkefni Fjarskiptastofu vegna truflana á farsímasambandi af völdum úreltra örbylgjuloftneta 

 

Miklar fjarskiptatruflanir hafa herjað á hluta farsímakerfanna á höfuðborgarsvæðinu. Þessar truflanir hafa umtalsverð áhrif á gæði og öryggi farsímaþjónustu, hvort sem um er að ræða símtöl, skilaboð eða netnotkun. Uppruna truflananna má rekja til úreltra en virkra örbylgjuloftneta.

Athugið að ekki er verið að tala um UHF sjónvarpsloftnet eða greiðurnar svokölluðu.

Truflanirnar eru tilkomnar vegna bilunar í úreltum móttökubúnaði örbylgjuloftneta sem mörg heimili létu setja upp til að taka á móti útsendingum frá áskriftarsjónvarpi Fjölvarpsins á sínum tíma. Rekstri Fjölvarpsins var hætt 2017, en enn eru þúsundir loftneta uppsett og virk á höfuðborgarsvæðinu. Eina leiðin til að uppræta truflunina er að taka niður loftnetin eða taka þau úr sambandi við rafmagn. 

                                                                                                                                        Algengar gerðir af örbylgjuloftnetum  

Hvernig snertir þetta almenna farsímanotendur?

Gömul og úrelt örbylgjuloftnet sem ekki hafa verið fjarlægð eða aftengd geta valdið truflunum á farsímasambandi í viðkomandi húsi og nærliggjandi umhverfi. Þau loftnet sem ennþá eru tengd við rafmagn, eru virk og geta sent frá sér merki sem truflar farsíma. 
Dæmi um truflanir:
  • Minni gæði á talsambandi
  • SMS komast ekki til skila í fyrstu tilraun
  • Símtöl ná ekki í gegn í fyrstu tilraun og þau slitna
  • Streymi er hægt og höktir
  • Almenn netþjónusta og gagnaflutningur er hægur
Ofangreind atriði gefa hugmynd um þá truflun sem biluðu loftnetin valda en er ekki tæmandi. Athugið að þetta á eingöngu við þar sem loftnetin hafa ekki þegar verið aftengd eða fjarlægð.

Aðrar afleiðingar þess að hafa virkt örbylgjuloftnet:

Óþarfa rafmagnskostnaður
Eldhætta er alltaf fyrir hendi af raftengdum búnaði sem farinn er að bila 

Hvað er verið að gera til að koma í veg fyrir truflanir af þessu tagi?

Fjarskiptastofa hefur verið með virka truflanaleit í gangi og starfsmenn stofnunarinnar farið á milli hverfa þar sem þessi loftnet eru ennþá til staðar og aftengt búnaðinn sem truflar. Þegar hafa nokkur hundruð loftnet verið gerð óvirk. Fjarskiptastofa vinnur í fullu samráði við fjarskiptafélögin við leiðir til að vinna bug á truflununum.

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarið hefur þessi leit legið niðri og eru húseigendur, húsráðendur og/eða forsvarsmenn húsfélaga beðnir um að kanna hvort slik loftnet séu á þeirra húsum og þá aftengja þau ef kostur er.

Hversu útbreiddar eru truflanirnar?

Loftnetin sem um ræðir voru eingöngu í notkun á SV- horni landsins. Truflanir af þeirra völdum geta komið fram alls staðar þar sem þau eru enn á húsum og ennþá tengd í rafmagn.
 
Þekkt svæði í dag eru:
Höfuðborgarsvæðið s.s. Vesturbær, Fossvogur og ákveðin svæði í Kópavogi og Hafnarfirði
Akranes
Selfoss
Reykjanes

                                                                                                                                                    Nokkrar tegundir spennugjafa 

Leiðbeiningar til húseigenda

 
Þó svo að örbylgjuloftnetið sé hugsanlega ekki bilað að svo stöddu er sennilegt að búnaðurinn muni bila fljótlega og valda truflunum. 
Fjarskiptastofa hvetur húseigendur og húsfélög sem enn eru með örbylgjuloftnet á húsum sínum til að athuga hvort spennugjafar loftnetanna séu ennþá í sambandi og aftengja þá ef svo er. Misjafnt er hvar í húsum þeir eru staðsettir, en þeir voru alltaf í sambandi við rafmagn og frá þeim liggur loftnetskapall í loftnetið sjálft. Í fjölbýlishúsum geta spennugjafarnir verið staðsettir t.d. í:
  • Í risi eða á háalofti
  • Í sameiginlegu rými s.s. þvottahúsum eða hjólageymslum
  • Í eða við rafmagnstöflur
 
Í einbýlis, rað- eða parhúsum geta spennugjafarnir
verið staðsettir t.d.:
  • Nálægt sjónvarpsinntaki, bakvið sjónvarpstæki eða í sjónvarpsskápum
  • Í eða við rafmagnstöflur
  • Á háaloftum
  • Í bílskúrum

Í hnotskurn

Kanna hvort örbylgjunet er staðsett á húsinu. Ef svo er þarf að grípa til eftirtalinna ráðstafanna:

  1. Staðsetja spennugjafann og fjarlægja hann eða amk aftengja frá rafmagni.
  2. Finnist spennugjafinn ekki, verður að fjarlægja örbylgjuloftnetið. Í slíkum tilfellum er afar mikilvægt að fá fagfólk í verkið til að tryggt sé að þannig sé gengið frá lögnum að ekki hljótist skaði af rafmagni sem kann að vera virkt!
Húseigendum er bent á að leita aðstoðar fagaðila við að fjarlægja búnaðinn ef með þarf. Þetta á sérstaklega við um fjölbýlishús þar sem innanhúss sjónvarpsdreifikerfi er til staðar og uppsetning búnaðarins kann að vera flókin. 

Kvartanir vegna truflana

Fjarskiptastofa  tekur við kvörtunum vegna truflana á fjarskiptum. Stofnunin leitast við að finna orsakir þeirra eins fljótt og verða má og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bætt verði þar úr.
Hægt er að senda inn kvörtun rafrænt  eða með tölvupósti í netfang fjarskiptastofa@fjarskiptastofa.is og senda okkur skilaboð á Facebooksíðu stofnunarinnar.

Algengar spurningar og svör

A. Hvers konar truflun er þetta?

Tíðnisviðið 2500 – 2690 MHz var áður notað fyrir sjónvarp en hefur nú verið úthlutað fyrir farsíma. Örbylgjuloftnetin móttaka því farsímasendingar á þessu tíðnisviði og biluð örbylgjuloftnet valda því að þau trufla farsímaþjónustu. 


Dæmi um truflanir: 

  • Minni gæði á talsambandi
  • Símtöl ná ekki í gegn í fyrstu tilraun og þau slitna
  • Almenn netþjónusta og gagnaflutningur er hægur eða getur hökt 

B. Af hverju koma þessar truflanir á farsímaþjónustu?

Truflanirnar eru tilkomnar vegna bilunar í úreltum móttökubúnaði örbylgjuloftneta, sem notaðir voru til að taka á móti Fjölvarpinu á sínum tíma. Búnaðurinn er kominn til ára sinna og farinn að bila með þeim hætti að hann sendir nú frá sér radíóbylgjur sem trufla 4G farsímaþjónustu. Ein leið til að uppræta truflunina er að taka spennugjafa loftnetsins úr sambandi við rafmagn. 

C. Hvað er örbylgjuloftnet og af hverju var það sett upp?

Örbylgjuloftnetin  voru keypt og sett upp af eigendum þeirra heimila sem um ræðir og gátu með þeim náð útsendingum fjölmargra íslenskra sem erlendra sjónvarpsstöðva á árunum 1993-2017.   Þessi loftnet gegna engu hlutverki lengur heldur valda nú eða munu síðar valda truflunum á farsímaþjónustu (símtöl, skilaboð, netnotkun) til þeirra sem eru í nálægð við þau

D. Hvað er spennugjafi?

Spennubreytir lækkar spennu úr 230 volt  í  18 volt sem spennugjafinn notar til að sjá móttökubúnaði örbylgjulofnetsins fyrir rafmagni.

E. Hvernig lítur þessi búnaður út?

Myndir sem gefa dæmi um hvernig  örbylgjuloftnetin og spennugjafarnir líta út eru á síðunni hér fyrir ofan

F. Hvernig veit ég hvort örbylgjuloftnet sé á mínu húsi?

 Loftnet er sjáanlegt utan á húsinu. Ef það er til staðar, er líklegt að spennugjafi sé staðsettur innanhúss. 

G. Hvað ætti ég að gera fyrst?

Mikilvægt er að aftengja spennugjafann! 

Fyrst þarf að athuga hvort örbylgjuloftnet sé staðsett á húsinu, en það ætti að vera á þaki hússins. Ef örbylgjuloftnet er staðsett á húsinu, þarf að finna spennugjafann sem tengdur er við rafmagn og loftnetið. Spennugjafinn er staðsettur einhvers staðar innanhúss.

H. Hvar finn ég spennugjafann?

Misjafnt er hvar í húsum spennugjafar eru staðsettir en þeir voru alltaf í sambandi við rafmagn og frá þeim liggur loftnetskapall í loftnetið sjálft. Í fjölbýlishúsum geta þeir verið staðsettir t.d. í risi eða á háalofti, í sameiginlegu rými s.s. þvottahúsum eða hjólageymslum, eða í og við rafmagnstöflur. Í einbýlis-,rað- eða parhúsum geta spennugjafar verið staðsettir t.d. nálægt loftnetsinntaki, bakvið sjónvarpstæki eða í sjónvarpsskápum, í eða við rafmagnstöflur, á háaloftum eða í bílskúrum. Sums staðar má sjá loftnetskapla liggja niður skorsteina og þá er spennugjafinn einhvers staðar nálægt honum innanhúss.

Ef spennugjafinn finnst og er aftengdur er ekki nauðsynlegt að fjarlægja örbylgjuloftnetið.

I. Hvað ef ég finn ekki spennugjafann?

Ef þú finnur ekki spennugjafann er nauðsynlegt að fá fagmann/rafverktaka til að aftengja eða fjarlægja loftnetið á húsinu og rjúfa þannig tengingu þess við rafmagn (spennugjafann). Mikilvægt er að ganga rétt frá kaplinum sem tengist við loftnetið, því það getur verið spenna á kaplinum.

J. Hvað gerist ef ég geri ekki neitt?

Örbylgjuloftnet eru gjörn á að bila og valda truflunum á farsímasambandi. Ef ekkert verður gert eru eftirfarandi sviðsmyndir til umhugsunar:

  • Truflanir á farsímasambandi á þínu heimili og nágrenni þess eru mjög líklegar, bæði hvað varðar símtöl, skilaboð og netnotkun (streymi)
  • Óþarfa rafmagnskostnaður fylgir því að hafa loftnetið í rafmagnssambandi
  • Eldhætta getur skapast. Ef gömul loftnet eru ekki aftengd er hætt við að þau tærist með tímanum eða loftnetskaplar fari í sundur. Þá er hætta á að spennugjafar skammhleypist sem getur valdið eldhættu.

K. Ég er leigjandi – hvert sný ég mér fyrir aðstoð?

Best að er byrja á því að athuga hvort þú sjáir örbylgjuloftnet á húsinu. Ef svo er, þá gæti verið einfalt að finna spennugjafann og aftengja við rafmagn. 
Ef þú finnur ekki spennugjafann, skaltu hafa samband við húseiganda.

L. Hversu mörg örbylgjuloftnet eru enn virk?

Gera má ráð fyrir að þúsundir loftneta séu enn uppsett og virk á höfuðborgarsvæðinu. Þekkt svæði í dag eru:

  •  Höfuðborgarsvæðið s.s. Vesturbær, Fossvogur og ákveðin svæði í Kópavogi
  • Akranes
  • Selfoss
  • Reykjanes

M. Ber ég einhvern kostnað af því að láta fjarlægja búnað ef ég get ekki gert það?

Ef þörf reynist á að fá  rafverktaka til að fjarlægja búnaðinn þarf húsráðandi að greiða þann kostnað.

N. Ber Fjarskiptastofu ekki að fjarlægja öll úrelt örbylgjuloftnet fyrir íbúa?

Örbylgjuloftnetin sem um ræðir voru keypt og sett upp af eigendum þeirra heimila sem um ræðir og notuðu Fjölvarpið á sínum tíma. Loftnetin eru því á ábyrgð húseiganda.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?