Hoppa yfir valmynd

Kallað eftir merkingum á farsíma í Evrópu með tilliti til móttökuhæfni þeirra

Tungumál EN
Heim

Kallað eftir merkingum á farsíma í Evrópu með tilliti til móttökuhæfni þeirra

24. maí 2013

Fjarskiptaeftirlitsstofnanir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hafa farið þess formlega á leit, með bréfi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að innleiddar verði merkingar á farsímtækjum með tilliti til hæfni þeirra til að nema merki frá fjarskiptasendum.  Sameiginlegar merkingar í Evrópu myndu auka gagnsæi á markaði fyrir slík tæki og gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun við kaup á farsímum.

Móttökugeta farsíma fer annars vegar eftir hæfni tækisins sjálfs og hins vegar eftir því hvernig notandinn heldur á símanum. Mikill munur getur verið á hæfni tækjanna til að taka á móti merkjum frá sendum.  Þetta á ekki síst við um snjallsíma og hæfni þeirra til að taka á móti gögnum.  Loftnet símans er mikilvægur þáttur í þráðlausum samskiptum og athuganir hafa sýnt að mikill munur er á virkni þeirra milli snjallsímagerða.

Forstjórar fjarskiptaeftirlitsstofnana Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Eistlands, Lettlands og Litháen hittust á fundi í Noregi dagana 21. og 22. maí sl. þar sem þetta mál var rætt og var það niðurstaða fundarins að hér væri á ferðinni nauðsynlegt og mikilvægt skref til að auka gagnsæi fyrir neytendur.

Á fundinum var einnig rætt um ýmsa aðra þætti fjarskiptamála, svo sem um þróun fjarskiptaneta í átt til aukinnar gagnaflutningsgetu, öryggi í fjarskiptum og útbreiðslu farneta.

 

Bréf forstjóranna til framkvæmdastjórnar ESB (PDF)

Sameiginleg fréttatilkynning (PDF)

 

 

Til baka