Hoppa yfir valmynd

Nýlegar ákvarðanir PFS um rétthafabreytingar á símanúmerum og breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning

Tungumál EN
Heim

Nýlegar ákvarðanir PFS um rétthafabreytingar á símanúmerum og breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning

8. september 2010

Póst- og fjarskiptastofnun birti nýlega tvær ákvarðanir sem varða rétthafabreytingar á símanúmerum. Um er að ræða ákvarðanir PFS nr. 20/2010 og 21/2010 frá 18. og 25. ágúst s.l. Síðustu misseri hefur nokkuð borið á ágreiningsmálum vegna rétthafabreytinga á símanúmerum þar sem vinnuveitendur hafa gerst greiðendur símreikninga starfsmanna sinna. Framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna hefur verið mismunandi og nokkuð hefur borið á því að ekki er gerður greinarmunur á breytingu á greiðanda og rétthafa símanúmers. Til að skýra framkvæmdina og réttarstöðu aðila í málum sem þessum ákvað PFS að gefa út nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum, sbr. reglur nr. 617/2010 frá 6. júlí s.l. Þar er að finna ákvæði í 10. gr. um rétthafabreytingu. Þar kemur m.a. skýrt fram að fjarskiptafyrirtæki sé ekki heimilt að skrá annan aðila sem rétthafa númers nema rafrænt eða skriflegt samþykki þess rétthafa sem afsalar sér númerinu liggi fyrir. Fjarskiptafyrirtæki skal varðveita gögn um slíkt samþykki í a.m.k. 2 ár. Að þeim tíma liðnum ber notandi númers sönnunarbyrðina um að hann sé rétthafi þess, rísi upp ágreiningur um það.

Ákvörðun PFS nr. 20/2010
Í ákvörðun PFS nr. 20/2010 var niðurstaða PFS sú að framkvæmd Nova við rétthafabreytingu á símanúmeri tiltekins einstaklings (kvartandi) hafi ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum, sbr. og ofangreinda 10. gr. reglna um númera- og þjónustuflutning, þar sem upplýst samþykki kvartanda fyrir rétthafabreytingunni lá ekki fyrir þegar hún var framkvæmd í júlí s.l. Því var kvartandi talinn réttmætur rétthafi umrædds símanúmers. Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að í ljósi þess hve íþyngjandi rétthafabreyting getur verið fyrir viðskiptavini verði að gera miklar kröfur til fjarskiptafyrirtækja um að upplýsa þá um hvað felist í breytingum sem þessum.    

Ákvörðun PFS nr. 21/2010
Í ákvörðun PFS nr. 21/2010 var niðurstaðan hins vegar á þann veg að ósannað þætti að framkvæmd Símans við rétthafabreytingu á tilteknu farsímanúmeri á árinu 2004 hefði ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum í almennum fjarskiptanetum. Því var kröfu kvartanda, sem var upphaflegur rétthafi númersins, um að númerið yrði flutt aftur til hans hafnað. Í máli þessu greindi aðila verulega á um málsatvik og orð stóð gegn orði. Kvartandi fékk umræddu farsímanúmeri úthlutað á árinu 2000 f.h. ólögráða sonar síns. Sonurinn starfaði hjá fyrirtæki nokkru frá árinu 1999 til ársins 2010 þegar hann sagði upp störfum. Óumdeilt var að umræddur vinnuveitandi gerðist greiðandi umrædds símanúmers með vitund og vilja sonar kvartanda en ágreiningurinn stóð um hvort heimild hafi einnig verið veitt fyrir rétthafabreytingu. Eins og að framan greinir tókst ekki að sanna að framangreind rétthafabreyting frá árinu 2004 hafi verið ólögmæt enda langt um liðið. Þá flækti það málið að orð stóð gegn orði og að símanúmerið hafði í tvígang verið flutt á milli þjónustuveitenda eftir umrædda rétthafabreytingu. Númerið er nú vistað hjá fjarskiptafyrirtæki sem enga aðkomu átti að ofangreindum ágreiningi og var í góðri trú.

 

Til baka