Hoppa yfir valmynd

Og fjarskiptum hf. skylt að gæta jafnræðis

Tungumál EN
Heim

Og fjarskiptum hf. skylt að gæta jafnræðis

12. apríl 2005

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS ) hefur ákvarðað að Og fjarskiptum hf. (Og Vodafone) sé skylt sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á farsímamarkaði að gæta jafnræðis, sbr. 25. gr. fjarskiptalaga nr. 107/1999, að því er varðar svokallaða lúkningu símtala inn á farsímanet fyrirtækisins. Sú skylda nái m.a. til þess að sama gjald skal tekið óháð því úr hvaða neti símtalið er upprunið. Ber Og fjarskiptum að bókfæra sölu á lúkningu til fastanets fyrirtækisins á sama verði og til annarra fyrirtækja.

Og fjarskiptum hf. er veittur 30 daga frestur frá dagsetningu ákvörðunar Póst-og fjarskiptastofnunar 11.apríl til að sýna fram á með fullnægjandi gögnum að fyrirtækið hafi látið af mismunun í verðlagningu á lúkningu í farsímaneti fyrirtækisins. Að öðrum kosti mun PFS grípa til viðeigandi ráðstafana skv. 3. mgr. 73. gr. laga nr. 81/2003.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar á sér nokkra forsögu. Síminn krafðist þess í október 2003 að PFS beindi þeim fyrirmælum til Vodafone að láta af mismunun í verðlagningu. Vodafone gerði þá mótkröfu að kröfu Símans yrði hafnað.
Greindu menn á um túlkun laga um skyldur fyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild að gæta jafnræðis. Vodafone hélt því fram að kvöð um jafnræði hefði ekki stofnast sjálfkrafa við ákvörðun PFS um að fyrirtækið hefði markaðsráðandi hlutdeild. Einnig að ekki fælist í 1. mgr. 25. gr. fjarskiptalaga 107/1999 skylda til að gæta jafnræðis í verði. Síminn hélt því hins vegar fram að skylda til jafnræðis hefði stofnast 15. júlí 2003 þegar Vodafone var úrskurðað með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og farsímaþjónustu.
 
Það er álit Póst- og fjarskiptastofnunar að skyldur fyrirtækja um aðgang og samtengingar hvíli sjálfkrafa á fyrirtækum sem úrskurðuð hafa verið með umtalsverða markaðshlutdeild. Það er jafnframt álit PFS að einn mikilvægasti þátturinn í samningum um samtengingu sé verð. Það sé því ekki hægt að líta svo á að fyrirtæki gæti jafnræðis með tilliti til samtenginga sem þau bjóða,  ef þau mismuni í þeim mikilvæga þætti sem verðið er.

 Sjá úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar

Til baka