Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um bráðabirgðaákvörðun vegna kvartana um meint brot á reglum um númera- og þjónustuflutning

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS um bráðabirgðaákvörðun vegna kvartana um meint brot á reglum um númera- og þjónustuflutning

22. febrúar 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2010 í ágreiningsmáli á milli Símans hf., Nova ehf. og Og fjarskipta ehf. (Vodafone).  Málið varðar meint brot á 14 gr. reglna um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum nr. 949/2008 þar sem m.a. er kveðið á um að þegar rétthafi númers hefur óskað flutnings frá fjarskiptafyrirtæki skuli fyrirtækið ekki viðhafa samskipti við rétthafann sem miða að því að koma í veg fyrir flutninginn.

Málsatvik eru þau að PFS bárust kvartanir frá Símanum og Nova vegna meintra brota Vodafone á fyrrgreindri 14. gr. Krafðist Síminn að PFS tæki bráðabirgðaákvörðun sem bannaði Vodafone að hafa samband við viðskiptavini sem óskað hafa eftir flutningi til Símans í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning. Vodafone gerði gagnkröfu um að slíkri ákvörðun yrði þá beint að öllum aðilum á markaði ef fallist yrði á að skilyrði fyrir töku bráðabirgðarákvörðunar væru fyrir hendi. Í ljósi þess að kvartanir Símans og Nova á hendur Vodafone voru samkynja og þess að Vodafone gerði sömu gagnkröfu á hendur báðum gagnaðilum sínum taldi PFS að forsendur væru til þess að taka kröfur aðila að því er varðar töku bráðabirgðarákvörðunar fyrir í einu og sama málinu.

Í ákvörðunarorðum PFS segir:

Fjarskiptafélögunum Símanum hf., Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) og Nova ehf. er óheimilt að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, meðan á númera- eða þjónustuflutningi stendur, í þeim tilgangi að hafa frumkvæði að því að bjóða þeim tilboð um betri kjör ákveði þeir að hætta við flutning.

Fari synjunarhlutafall flutningsbeiðna fráfarandi fjarskiptafyrirtækis upp fyrir 20% á mánaðargrundvelli skal fjarskiptafyrirtækið veita Póst- og fjarskiptastofnun eftirfarandi upplýsingar um alla þá viðskiptavini sem hættu við flutning á því tímabili: a) Nafn, kennitala og heimilisfang viðskipamanns, b) Símanúmer og/eða þjónustutegund viðskiptamanns, c) Ástæður þess að viðskiptamaður hætti við flutning til móttakandi fjarskiptafyrirtækis

Fyrstu fjórar vikur frá dagsetningu ákvörðunar þessarar skal synjunarhlutfallið þó mælt vikulega og miðast við tímabilið frá mánudegi til mánudags.

Fjarskiptafyrirtæki sem viðhafa gæðaeftirlit í númera- eða þjónustuflutningsferli, með því að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, skulu setja sér verklagsreglur um framkvæmd þess. Skal afrit af slíkum verklagsreglum hafa borist Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar 25. febrúar nk., auk staðfestingar fyrirsvarsmanns fjarskiptafyrirtækis á því að þær hafi verið kynntar hlutaðeigandi starfsfólki þess.

Ákvörðun þessi er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Kæran skal berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

Sjá ákvörðunina í heild:  Ákvörðun PFS nr. 2/2010 (PDF)

 

Til baka