Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu

15. maí 2013

Í gær sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðunum um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (markaður 1) og á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (markaðir 3-6 samkvæmt eldri tilmælum ESA).

PFS hyggst útnefna Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (markaður 1) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, þ.m.t. heildsöluaðgangskvaðir á borð við forval, fast forval og leigu á talsímalínu á heildsölustigi. Síðastgreind aðgangsleið gerir þjónustuveitendum í samkeppni við Símann kleift að gera viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning fyrir bæði aðgengi að talsímakerfi Símans og talsímaþjónustu sem veitt er um það kerfi. Þá hyggst PFS m.a. leggja kvöð á Símann um kostnaðargreind verð fyrir umræddan aðgang. Umræddur markaður var áður greindur í árslok 2008 þar sem niðurstaðan var sú sama, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008.

Þá hyggst PFS afnema útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (markaðir 3-6 samkvæmt eldri tilmælum ESA). Er þar um að ræða smásölumarkaði fyrir innlenda talsímaþjónustu, annars vegar til heimila og hins vegar til fyrirtækja, og erlenda talsímaþjónustu, bæði til heimila og fyrirtækja. Verða því engar kvaðir á þeim markaði. Umræddur markaður var síðast greindur í árslok 2008, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008, og var Síminn þar útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, en engar smásölukvaðir voru þó lagðar á félagið.

Drög að ofangreindum ákvörðunum voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka.

 

Sjá nánar hér á vefnum:

Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA

Upplýsingar um markaðsgreiningu

 

 

Til baka