Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða á markaði 7 (lúkning símtala í farsímanetum)

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða á markaði 7 (lúkning símtala í farsímanetum)

27. september 2012

Þann 26. september 2012 sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um verðsamanburð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðarins verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals frá og með 1. júlí 2013, í stað kostnaðargreiningar Símans sem PFS samþykkti árið 2010. Samkvæmt umræddri kostnaðargreiningu Símans eiga hámarks lúkningarverð allra farsímafyrirtækjanna að verða jöfn í 4 kr./mín þann 1. janúar n.k. Það verð gildir því til 1. júlí 2013 þegar verðin lækka í 1,66 kr./mín í samræmi við niðurstöðu ofangreinds verðsamanburðar.

Í ákvörðun PFS nr. 3/2012, dags. 13. janúar s.l., um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7), var kveðið á um að PFS myndi framkvæma umræddan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember n.k., sem myndi vera grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja frá og með 1. janúar 2013. PFS skyldi síðan framkvæma slíkan verðsamanburð árlega fyrir umrædd tímamörk vegna lúkningarverða næsta árs á eftir.

Í kjölfar innanlandssamráðs sem lauk þann 14. september 2012 ákvað PFS að fresta innleiðingu hins nýja verðs um hálft ár eða til 1. júlí 2013. Þetta er gert til að koma að nokkru leyti til móts við athugasemdir farsímafyrirtækjanna.

Drög að ofangreindri ákvörðun voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í gær með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka.

Sjá nánar:

Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum

 

 

Til baka