Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á alþjónustuskyldum Já og breytingar á skráningarhaldi yfir áskrifendur og númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á alþjónustuskyldum Já og breytingar á skráningarhaldi yfir áskrifendur og númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur

24. júní 2013

Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur.

Núgildandi alþjónustukvaðir Já voru lagðar á fyrirtækið með ákvörðun PFS, nr. 22/2011, um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar (1) útgáfu símaskrár, prentaðrar sem og vefútgáfu, (2) upplýsingaþjónustu um símanúmar, (3) varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur á Íslandi sem og (4) kvöð um aðgang að þeim gagnagrunni. Síðasti töluliður ákvörðunarinnar var þó felldur úr gildi af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 4/2011.

Í því samráðsskjali sem hér er birt eru boðaðar þrjár meginbreytingar:

  • Í fyrsta lagi er boðað að PFS muni fella niður alþjónustukvaðir á Já er lúta að rafrænni útgáfu símaskrár, rekstri upplýsingaþjónustu um símanúmer í 118 og varðveislu heildstæðs gagnagrunns yfir símanúmer. Aftur á móti hyggst PFS viðhalda kvöð er kemur að útgáfu prentaðrar símaskrár.
  • Í öðru lagi áréttar PFS skyldu fjarskiptafyrirtækja sem úthluta símanúmerum um að vera í stakk búin að afhenda númera- og vistfangaskrár sínar um áskrifendur, sbr. 45. gr. fjarskiptalaga, á kostnaðargreindu verði, en að svo stöddu geta þau ekki tryggt réttleika ákveðinna grunnupplýsinga sem lagaákvæðið kveður á um. Með þessu er leitast við að tryggja að aðili sem hyggst reka slíka upplýsingaþjónustu getur hafið starfsemi á sama grundvelli og Já gerir nú. Með afnámi mögulegra aðgangshindrana mun að mati PFS komast á samkeppni á þessum markaði sem vænst er til að leiði til sanngjarns verðs til neytenda fyrir aðgang að upplýsingum sem þessum. Fjarskiptafyrirtækin geta almennt, á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gert samning um vinnslu persónuupplýsinga, en í samráðsskjalinu setur PFS ákveðin skilyrði um hvað fram skuli koma í slíkum samningi svo ákvæði fjarskiptalaga séu virt. Þá leggur PFS til ákveðið sniðmát sem upplýsingar skuli afhentar á til þriðja aðila.
  • Í þriðja lagi boðar stofnunin að leyfi Já upplýsingaveitna hf. fyrir notkun á stuttnúmerinu 118 verði afturkallað og notkun á því hætt. Í stað þess verði tekin upp fjögurra stafa símanúmer fyrir upplýsingaþjónustu af þessu tagi. Eru í skjalinu lagðir fram þrír valmöguleikar og er óskað athugasemda hagsmunaaðila hvað þá varðar.

Í samráðsskjalinu er að finna tímasetta áætlun PFS um hvernig breytingunum verður komið á. Kemur jafnframt fram að samráðsskjalið feli í sér boðun ákvörðunar um þessi efni og ekki sé að vænta frekari boðana, að undanskilinni kostnaðargreiningu á aðgangi að númera- og vistfangaskrám.

PFS hvetur alla sem telja að þeir eigi hagsmuna að gæta varðandi ofangreindar áætlanir stofnunarinnar að senda inn athugasemdir sínar og umsagnir um samráðsskjalið sem hér er birt. Skal setja athugasemdir fram með skipulegum hætti og tengja þær við einstaka kafla samráðsskjalsins eftir því sem við á.

Frestur til að skila inn athugasemdum og umsögnum er til og með 16. ágúst n.k.

Athugasemdir skulu berast annað hvort á netfangið unnur(hjá)pfs.is og/eða bréflega til stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík.

PFS áskilur sér rétt til að birta allar innsendar athugasemdir í heild sinni.

Sjá samráðsskjal:
Samráð PFS um endurskoðun alþjónustukvaða Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu númeraskipulagi fyrir upplýsingaþjónustur.  (PDF)

 

 

Til baka