Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um lokun Mílu ehf. fyrir skiptan aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um lokun Mílu ehf. fyrir skiptan aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar

3. september 2009

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2009, í ágreiningsmáli um lokun Mílu ehf. fyrir skiptan aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar.

Til skýringar skal það tekið fram að þegar aðgangur að heimtaug er skiptur fær viðkomandi endanotandi þjónustu frá tveimur aðilum um sömu heimtaug; talsímaþjónustu frá öðrum og gagnaflutningsþjónustu frá hinum.

Málsatvik eru þau að PFS bárust tvær kvartanir frá ótengdum aðilum, annars vegar fjarskiptafyrirtæki og hins vegar endanotanda, þess efnis að Míla hafi lokað fyrir aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar vegna þess að Síminn, sem hafði leigt aðgang að neðra tíðnisviði heimtaugarinnar fyrir talsímaþjónustu, hafi sagt upp heimtaugaleigusamningi sínum vegna vanskila viðskiptavinar fyrir veitta þjónustu.

Í ákvörðun PFS kemur fram að Mílu er ekki heimilt að loka fyrir aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar vegna þess að þjónustuveitandi að neðra tíðnisviði heimtaugarinnar hafi sagt upp samningi sínum, nema einhver skilyrða 2. mgr. 34. gr. fjarskiptalaga og 7. eða 8. gr. viðmiðunartilboðsins séu jafnframt fyrir hendi. Skýringar Mílu þess efnis að reynslan hafi sýnt að fjarskiptafyrirtæki sem eingöngu leigir efra tíðnisviðið er ekki tilbúið að greiða fullt gjald fyrir heimtaugina réttlætir ekki slíka framkvæmd.
Í ákvörðunarorðum segir:

„Mílu ehf. er óheimilt að loka fyrir skiptan aðgang leigutaka að efra tíðnisviði heimtaugar komi til uppsagnar leigutaka að neðra tíðnisviði heimtaugar, heldur skal ákvæði 5. mgr. 7. gr. viðauka 1a (grunnþjónusta) með viðmiðunartilboði Mílu um opin aðgang að heimtaugum þá gilda og leigutaki að efra tíðnisviði heimtaugar greiða leiguverð eins og um fullan aðgang að heimtaug sé að ræða.“

Skal Míla tilkynna leigutaka efra tíðnisviðs um uppsögn leigutaka neðra tíðnisviðs án ástæðulauss dráttar þegar slík uppsögn berst.“

Sjá ákvörðunina í heild:  Ákvörðun PFS nr. 16/2009 (PDF)

 

 

Til baka