Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli OR og GR

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli OR og GR

17. september 2010

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 14/2010 er varðar tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar fjarskiptareksturs Gagnaveitur Reykjavíkur ehf. (GR) frá sérleyfisstarfsemi fyrirtækjasamstæðu Orkuveitu Reykjavíkur sf. (OR).

Í hinni kærðu ákvörðun fyrirskipaði Póst- og fjarskiptastofnun GR að sækja um fyrirfram samþykki stofnunarinnar fyrir hlutafjáraukningu sem OR eða annað fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðunnar væri greiðandi að. Fram kom að PFS myndi því aðeins samþykkja slíka hlutafjáraukningu að hún rúmaðist innan eðlilegs fjárhagslegs aðskilnaðar og fæli ekki í sér að samkeppnisrekstur væri niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi. Þar til slíkt samþykki lægi fyrir væri GR óheimilt að samþykkja hlutafjáraukningu á hluthafafundi eða tilkynna um slíka hækkun til hlutafélagaskrár. Í umræddri ákvörðun kvað PFS ennfremur á um að skammtímaskuldir GR við OR eða önnur félög innan samstæðunnar mættu aldrei nema hærri fjárhæð en sem næmi 2ja mánaða eðlilegum viðskiptum milli aðilanna á hverjum tíma, eins og um ótengda aðila væri að ræða.

GR gerði þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd að sá hluti hinnar kærðu ákvörðunar er varðaði fyrirfram samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningu, sem OR væri greiðandi að, ætti einungis við á meðan sérleyfisstarfsemi væri rekin innan OR, en til stæði að færa þá starfsemi frá OR til sérstaks félags innan samstæðunnar frá og með ársbyrjun 2011.

Úrskurðarnefnd hafnaði kröfu GR og staðfesti hina kærðu ákvörðun PFS. Vísaði nefndin til þess að ákvæði 36. gr. fjarskiptalaga mælti fyrir um að fjarskiptafyrirtæki, eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet og njóta einkaréttinda á öðru sviði en fjarskiptum, skuli halda fjarskiptastarfseminni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi. Ákvæðið væri skýrt um það að ef fyrirtækjasamstæða stundaði rekstur fjarskipanets og nyti umræddra sérréttinda á öðrum sviðum skyldi samstæðan sjá til þess að fjarskiptastarfsemin væri fjárhagslega aðskilin. Að mati nefndarinnar hefði það engin áhrif á heimildir PFS samkvæmt ofangreindu ákvæði að einkaleyfisreksturinn væri færður í annað fyrirtæki innan samstæðunnar. Ráðstafanir sem vörðuðu einkaleyfisstarfsemi samstæðunnar gætu að mati nefndarinnar ekki skert eftirlitsheimildir PFS með fjarskiptastarfsemi. Það kæmi síðan í hlut PFS hverju sinni að meta þörfina fyrir íhlutun og hversu langt hún skyldi ganga.

Að lokum hafnaði úrskurðarnefnd þeirri málsástæðu GR að PFS hefði í hinni kærðu ákvörðun gengið of hart fram gegn GR og brotið þannig gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kom að ljóst væri að gert væri ráð fyrir tiltekinni arðsemi af einkaleyfisstarfseminni og að hin lögbundna gjaldtaka kæmi til með að skila hagnaði. Að mati nefndarinnar væri ekki girt fyrir að sá hagnaður gæti runnið til OR og þaðan til GR, t.d. í formi hagstæðra lána- eða viðskiptaskilmála eða aukins eiginfjárframlags. 

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 3/2010 í heild (PDF)

 

   

Til baka