Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun um skiptingu kostnaðar á samtengingarsamböndum

Tungumál EN
Heim

PFS birtir ákvörðun um skiptingu kostnaðar á samtengingarsamböndum

10. ágúst 2009

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2009, Og fjarskipti ehf. (Vodafone) gegn Símanum hf. í ágreiningsmáli um skiptingu kostnaðar á samtengingarsamböndum.
Í máli þessu krafðist Vodafone þess m.a. að PFS kvæði á um að Símanum verði gert skylt að greiða helming af kostnaði vegna samtengistrauma á milli félaganna. Vísaði fyrirtækið máli sínu til stuðnings í ákvörðun PFS nr. 13/2007, þeirrar staðreyndar að fyrirtækin höfðu ekki gengið frá samtengisamningi á milli fyrirtækjanna á grundvelli viðmiðunartilboðs Símans um samtengingu talsímaneta og samkomulag fyrirtækjanna um skiptingu kostnaðar frá 3. mars 2006.
Síminn aftur á móti hélt því m.a. fram að Vodafone uppfyllti ekki skilyrði viðmiðunartilboðsins um skiptingu kostnaðar og ætti af þeim sökum að greiða allan kostnað af samtengingarsamböndunum.

Í niðurstöðu PFS segir m.a.

„Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða PFS, með vísan í 24. og 29. gr. fjarskiptalaga, sbr. og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun, að skilmáli 4.1.4. Kostnaðardeiling hafi ekki öðlast gildi gagnvart Vodafone, að því er varðar skilyrði Símans fyrir þátttöku í kostnaði af samtengistraumum, við gildistöku viðmiðunartilboðs Símans (útgáfu 3.4) þann 1. ágúst 2007 samkvæmt ákvörðun PFS nr. 13/2007. Símanum er því ekki heimilt að krefja Vodafone um endurgreiðslu vegna þátttöku í kostnaði af samtengistraumum frá þeim tíma. Er því fallist á aðalkröfu Vodafone að þessu leyti. Að því er varðar hinn hluta aðalkröfunnar, um að Símanum verði gert skylt að greiða helming af mánaðarlegum kostnaði vegna samtengistrauma milli félaganna frá þeim tíma, þá telur PFS að ekki séu forsendur til þess að taka afstöðu til hennar að svo stöddu. Fyrir liggur að frá og með 23. júní 2009 skal skipting kostnaðar vegna samtengistrauma vera jöfn, að uppfylltum tilteknum lágmarksskilyrðum. Varðandi réttarstöðu aðila fyrir þann tíma verður að horfa til ákvörðunar PFS nr. 13/2007. Í henni, sbr. kafla 3.13.2., var komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við samtenginu neta yrði til hjá báðum aðilum, þ.e. Símanum og viðsemjanda hans, en þar sem aðstæður gætu verið mismunandi þyrfti að semja um hann í hverju tilviki fyrir sig. Var í því sambandi vísað til 24. gr. fjarskiptalaga. Ráða má af gögnum þessa máls að aðilar hafi ekki sest til samninga til að komast að samkomulagi um skiptingu kostnaðar vegna samtengistrauma frá því að gengið frá samningi þar að lútandi frá 3. mars 2006. Með tilliti til reglunnar um rétt og skyldu aðila til að semja um efni samtengisamninga, samkvæmt 24. gr. fjarskiptalaga, telur PFS það vera ótímabært að kveða upp úr um það hver skiptingin eigi að vera án þess að aðilar hafi reynt til þrautar að ná samkomulagi þar um. Þeim hluta aðalkröfu Vodafone er því hafnað.“

Ákvörðun PFS nr. 14/2009 

 

Til baka