Hoppa yfir valmynd

Ný kostnaðargreining PFS á umsýslugjaldi fjarskiptafyrirtækja fyrir númera- og þjónustuflutning

Tungumál EN
Heim

Ný kostnaðargreining PFS á umsýslugjaldi fjarskiptafyrirtækja fyrir númera- og þjónustuflutning

20. júní 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 6/2013, vegna kostnaðargreiningar á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning. Ákvörðunina má rekja til fyrri ákvarðana stofnunarinnar nr. 9/2012 og nr. 20/2012, er lutu báðar að ágreiningi aðila á fjarskiptamarkaðinum vegna númera- og þjónustuflutningsgjalda.

Með ákvörðuninni nú hefur ný kostnaðargreining á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning litið dagsins ljós. Niðurstaða PFS er að umsýslugjald skuli verða 440 kr. á hverja beiðni fyrir stök númer og 8.750 kr. á hverja beiðni fyrir innvalsseríur, án vsk. Hin nýju verð skulu samkvæmt ákvörðuninni að taka gildi þann 1. september 2013.

Í áðurnefndri ákvörðun PFS nr. 20/2012, frá því í júní í fyrra, var það m.a. niðurstaða stofnunarinnar að umrætt gjald skyldi taka mið af því gjaldi sem ákvarðað var árið 2000 og haldast óbreytt þar til ný kostnaðargreining hefði farið fram, með samræmdum hætti, af hálfu stofnunarinnar.

Í nóvember 2012, óskaði PFS eftir því við fjarskiptafyrirtæki, með skírskotun til ákvarðana stofnunarinnar nr. 9/2012 og 20/2012, að þau framkvæmdu kostnaðargreiningu þar sem tilteknar forsendur og upplýsingar kæmu fram. Alls bárust stofnuninni svör frá fjórum fjarskiptafyrirtækjum af þeim sjö sem stofnunin sendi bréf til, auk þess sem PFS kallaði eftir frekari upplýsingum frá einstaka fyrirtækjum.

Þær forsendur sem hin nýja greining stofnunarinnar byggði á koma fram í ákvörðuninni sjálfri, auk þess sem grundvelli greiningarinnar eru gerð skil.

Sjá nánar:
Ákvörðun PFS nr. 6/2013 vegna vegna kostnaðargreiningar á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning  (PDF)

 

 

Til baka