Hoppa yfir valmynd

Síminn braut gegn jafnræðiskvöð á farsímamarkaði

Tungumál EN
Heim

Síminn braut gegn jafnræðiskvöð á farsímamarkaði

14. maí 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 13/2012 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn jafnræðiskvöð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum.

Með ákvörðun PFS nr. 18/2010 lagði PFS jafnræðiskvöð á Símann á framangreindum markaði þar sem félaginu var gert óheimilt að mismuna fyrirtækjum varðandi innheimtu lúkningargjalda. Á árinu 2010 gerðu Síminn og Tal með sér sýndarnetssamning sem fól í sér að Tal, sem þá hafði komið sér upp eigin símstöð, fékk aðgang að farsímasendum Símans og gat því hafið innheimtu gjalda vegna lúkningar símtala í sýndarneti sínu sem áttu sér upphaf í kerfum annarra fjarskiptafyrirtækja.

Í ljós kom að Síminn og Tal innheimtu ekki gagnkvæm lúkningargjöld á milli félaganna, heldur aðeins gagnvart öðrum fjarskiptafyrirtækjum, þ.m.t. Vodafone og Nova. Síminn bar því við að um „innankerfissímtöl“ væri að ræða á milli Símans og Tals sem ekki bæri að innheimta lúkningu fyrir. Því hafi Síminn ekki mismunað og brotið gegn umræddri jafnræðiskvöð.

Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að um utankerfissímtöl sé að ræða á milli farsímakerfis Símans og sýndarnets Tals og því hafi borið að innheimta lúkningu á milli félaganna frá ágúst 2010 eins og félögin gerðu gagnvart Vodafone og Nova. Símanum er því gert að ná fram samkomulagi við Tal um gagnkvæma leiðréttingu á uppgjöri fyrir farsímaumferð á milli félaganna fyrir tímabilið sem um ræðir, miðað við að um utankerfissímtöl hafi verið að ræða með tilheyrandi lúkningargjöldum. Uppgjör þetta er háð ströngum skilyrðum og skal því lokið innan þriggja mánaða frá birtingu ákvörðunar þessarar. Að öðrum kosti ber Símanum að endurgreiða Vodafone og Nova innheimt lúkningargjöld frá lokum ágúst 2010 þar til félagið hefur látið af umræddri mismunun. 

Einnig kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Símanum sé óheimilt að veita smásölu félagsins, eða öðrum aðilum sem njóta heildsöluaðgangs að farsímaneti félagsins, hlutdeild í lúkningartekjum heildsölu félagsins. Símanum ber að leiðrétta slíkar millifærslur á milli deilda félagsins allt aftur til desember 2009. Þá skulu allir samningar á milli heildsölu og smásölu félagsins vera skriflegir, auk þess sem deildirnar skulu gera endursölusamning sín á milli í samræmi við gildandi viðmiðunartilboð um endursölusamning. 

 

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 13/2012 um brot Símans á jafnræðiskvöð á markaði fyrir lúkningu símtala í farsímaneti félagsins og hlutdeild smásölu Símans í heildsölutekjum (PDF)

 

 

Til baka