Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar

5. júní 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á greiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir leigu á koparheimtaugum. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjal). Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug verður 1.386 krónur á mánuði án vsk. Þar af verður grunnverð (neðra tíðnisvið) 1.042 krónur og verð fyrir skiptan aðgang (efra tíðnisvið) verður 344 krónur. Um er að ræða  8,6% hækkun frá núverandi gjaldskrá, sem verið hefur óbreytt frá 1. janúar 2012.

Fyrirhugað er að hin nýja  verðskrá Mílu ehf. taki gildi 1. ágúst 2013 og að fyrirtækið uppfæri viðmiðunartilboð sitt fyrir opinn aðgang að heimtaugum eigi síðar en við gildistöku ofangreindra verðbreytinga.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að  gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. júní nk. Ekki verður veittur frekari frestur.

Nánari upplýsingar veitir Óskar Þórðarson (netfang: oskarth(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:
Drög að ákvörðun varðandi endurskoðun á gjaldskrá koparheimtauga (PDF)

Til baka