Hoppa yfir valmynd

PFS hafnar umsókn Símans um framlag úr jöfnunarsjóði vegna reksturs almenningssíma

Tungumál EN
Heim

PFS hafnar umsókn Símans um framlag úr jöfnunarsjóði vegna reksturs almenningssíma

8. janúar 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með ákvörðun sini nr. 35/2012  hafnað umsókn Símans um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna áranna 2007-2011.
Með umsókn, dags. 14. október 2011 fór Síminn fram á framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna reksturs almenningssíma á árunum 2007 til 2011. Taldi fyrirtækið að tap vegna reksturs almenningssíma hafi á þessum árum verið rúmlega 40 milljónir eða um u.þ.b. 8 miljónir á ári að meðaltali og að skylt væri samkvæmt 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 að bæta fyrirtækinu upp tapið.

Í ákvörðun PFS er alþjónustukostnaður Símans m.a. borinn saman við sambærilegan kostnað í nokkrum löndum í Evrópu og er niðurstaðan sú að kostnaður Símans hafi verið undir 0,25 evrusenti á hvern íbúa á árunum 2007 til 2011. Í Bretlandi hafði t.d. ekki verið skylt að bæta BT kostnað af alþjónustu sem nam um 0,22 evrusent á ári á hvern íbúa.

Þar sem rekstur almenningssíma féll undir talsímasvið Símans var tap af almenningssímum einnig borið saman við afkomu fyrirtækisins á talsímasviði í smásölu og var niðurstaðan sú að tap af almenningssímum væri óverulegt samanborið við veltu og afkomu fyrirtækisins á því tímabili sem umsóknin náði yfir.

Jafnframt taldi PFS að þar sem hlutfallsleg byrði Símans af alþjónustu væri óveruleg væri ekki ástæða til að reikna út markaðsávinning fyrirtækisins, sem hugsanlega myndi þurrka tapið endanlega út.

Það er því niðurstaða PFS að tap Símans hafi ekki verið af þeirri stærðargráðu að rök standi til þess, samkvæmt reglum fjarskiptaréttar, að skylt sé að bæta fyrirtækinu upp hið útreiknaða tap fyrirtækisins af alþjónustu og er því hafnað að tap Símans af rekstri almenningssíma hafi verið ósanngjörn byrði í skilningi 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 35/2012 um umsókn Símans hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna áranna 2007-2011 (almenningssímar) (PDF)

 

 

Til baka