Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli vegna uppsetningar og frágangs Gagnaveitu Reykjavíkur á ljósleiðaralögnum

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli vegna uppsetningar og frágangs Gagnaveitu Reykjavíkur á ljósleiðaralögnum

1. október 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 26/2012, vegna kvörtunar um frágang ljósleiðaralagna Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR). Taldi kvartandi m.a. að frágangi og uppsetningu fjarskiptalagnanna væri verulega ábótavant og krafðist þess að PFS tæki til skoðunar hvort frágangur væri í samræmi við gildandi lög og afleiddar heimildir auk þess sem kvartandi óskaði eftir áliti PFS  á málinu í heild.

PFS leitaði til faggilds og óháðs skoðunaraðila, til þess að skoða og meta hvort umræddar fjarskiptalagnir og frágangur á þeim væru í samræmi við lög og reglur og gildandi staðla um fjarskiptalagnir, sbr. ÍST 150:2009 og TS 151:2009.

Með tilliti til skýrslu skoðunaraðila og fyrirliggjandi gagna í málinu, kemst PFS að þeirri niðurstöðu, að ýmsa vankanta sé að finna á frágangi lagnar og leggur fyrir GR að bæta úr þeim. Hins vegar bendir PFS á að tiltekin atriði, er ekki varða öryggi, séu frávíkjanleg að því gefnu að samkomulag um það náist á milli GR og viðeigandi aðila.

Ennfremur kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að inntak ljósleiðara fyrir umræddar íbúðir og staðsetning húskassa, sem tengja skal við hvert inntak, sé ekki í samræmi við kröfur ákvæða 4. og 6. gr. reglna nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir, sbr. ÍST 150:2009 og TS 151:2009.

Stofnunin telur hins vegar að þótt staðsetning fjarskiptainntaks og húskassa sé ekki í samræmi við reglur og gildandi staðla að öllu leyti, verði að horfa til nokkurra þátta í þeim efnum, s.s. að skv. TS 151:2009 er verkkaupa í sjálfsvald sett hversu ítarlega tæknireglunum er fylgt við uppbyggingu fjarskiptakerfis hans. Að mati stofnunarinnar felur umrædd undantekning það í sér að heimilt sé að víkja frá gildandi staðli og reglum með því skilyrði að verkkaupi (íbúðareigandi) veiti upplýst samþykki sitt fyrir slíkum frávikum, að því gefnu að ekki sé um nýbyggingu að ræða. Einnig verði að horfa til þess að um eldri byggingu er að ræða, þar sem kröfur um búnað og lagnaleiðir miðast við tækni byggingartímans. Þetta kann að leiða til þess að erfitt sé eða mjög kostnaðarsamt að fylgja staðlinum og reglunum eftir í hvívetna.

Það er því niðurstaða PFS að þrátt fyrir að inntak ljósleiðara fyrir umræddar íbúðir og staðsetning húskassa sé ekki í samræmi við fyrrgreindar reglur og staðla sé ekkert því til fyrirstöðu að samþykkis verði aflað eftir á, eða að gerðar verði breytingar á núverandi fyrirkomulagi innanhússlagnanna sem aðilar þessa máls yrðu ásáttir um.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 26/2012 (PDF)
 

 

 

Til baka