Hoppa yfir valmynd

Könnun PFS á dreifingu Íslandspósts á magnpósti

Tungumál EN
Heim

Könnun PFS á dreifingu Íslandspósts á magnpósti

6. apríl 2011

Með ákvörðun sinni nr. 36/2010 þann 10. nóvember sl.  veitti Póst- og fjarskiptastofnun Íslandspósti heimild til að dreifa magnpósti frá stórnotendum á allt að 1-5 dögum frá póstlagningu.

Í framhaldi af ákvörðun sinni ákvað stofnunin að kanna hvernig innleiðing hins nýja dreififyrirkomulags hafi gengið eftir, m.a. með tilliti til jafnræðis viðskiptavina Íslandspósts. Einnig var kannað hvernig Íslandspóstur stæði að dagstimplun þeirra póstsendinga sem flokkast sem magnpóstur. Íslandspósti voru send bréf, dags. 24. janúar og 17. febrúar s.l., þar sem spurt var út í ákveðna þætti hins nýja fyrirkomulags. Íslandspóstur sendi sín svör með bréfum, dags. 26. janúar og 22. febrúar s.l.  Þá fóru fulltrúar PFS í fyrirvaralausa vettvangsferð þann 2. mars 2011 til Íslandspósts. Könnunin var einnig fólgin í því að á tímabilinu 21. febrúar til 4. mars s.l. voru starfsmenn PFS, beðnir um að skrá allan áritaðan póst sem bærist til heimilismanna. Skráð var póstnúmer heimilisins, nafn sendanda (valkvætt), dagsetning póststimpils, dagsetning útburðar og greinanleiki stimpils (t.d. ólæsilegur, vantar).

Það er mat PFS að þrátt fyrir að tilteknir hnökrar hafi komið fram við innleiðingu hins breytta dreifikerfis bendi fyrstu niðurstöður könnunarinnar ekki til þess að um viðvarandi misbresti sé að ræða. Stofnunin mun halda áfram að fylgjast með framkvæmd dreifingar samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi eftir því sem ástæða er til.

Sjá nánar: Könnun Póst- og fjarskiptastofnunar á vinnuferlum og framkvæmd Íslandspósts á dreifingu magnpósts frá stórnotendum (PDF)

 

 

Til baka