Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun tekin um útboð á NMT-450 tíðnisviðinu

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun tekin um útboð á NMT-450 tíðnisviðinu

16. nóvember 2006

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að bjóða út allt NMT-450 tíðnisviðið til eins aðila til reksturs langdrægrar stafrænnar farsímaþjónustu.
Stefnt er að opnu útboði á fyrri hluta næsta árs, samkvæmt sérstakri auglýsingu um dagsetningu og fyrirkomulag.

Um síðustu áramót tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun Símanum ákvörðun sína um að nýta heimild til að fresta lokun NMT-farsímakerfisins þar til ný stafræn og langdræg farsímaþjónusta leysti hana af hólmi, eða til 31. desember 2008.  Stefnt er þó að því að ný þjónusta á 450 MHz tíðnisviðinu verði í boði talsvert fyrr eða fyrir árslok 2007. (Sjá fréttatilkynningu 2. jan. 2006)
Ákvörðun þessi var tekin með tilliti til mikilvægis þjónustunnar og hagsmuna notenda hennar.

Leitað var eftir áliti hagsmunaaðila á ýmsum þáttum málsins og voru þeir flestir sammála um að skynsamlegast væri að úthluta tíðnisviðinu til eins rekstraraðila. Þá var það samdóma álit þeirra að landfræðileg skipting tíðnisviðsins kæmi ekki til greina.

Í útboðsskilmálum verður mælt fyrir um forsendur og skilyrði úthlutunar, auk þess sem raktar verða þær tæknilegu kröfur til búnaðar sem hin nýja þjónusta verður að uppfylla. Stefnt er að því að útboðsskilmálar liggi fyrir upp úr næstu áramótum.

Sjá nánar:
Ákvörðun um útboð á NMT-450 tíðnisviðinu (PDF)
Samantekt á sjónarmiðum hagsmunaaðila

Til baka