Hoppa yfir valmynd

Evrópuþingið samþykkir aðgerðir til að lækka farsímagjöld milli landa

Tungumál EN
Heim

Evrópuþingið samþykkir aðgerðir til að lækka farsímagjöld milli landa

24. maí 2007

Evrópuþingið hefur samþykkt tillögur um reglur sem koma til með að lækka verð á alþjóðlegu reiki innan Evrópu. Kostnaður við símtöl í farsíma milli landa hefur hingað til verið hár og oft erfitt fyrir neytendur að fylgjast með verðlagningu á honum.

Í þeim tillögum sem nú hafa verið samþykktar er gert ráð fyrir verðlagshömlum á smásöluverð fyrir farsímareiki. Farsímafélögunum verður gert kleift að bæta við heildsöluverð sín hæfilegri smásöluálagningu.

Þessi smásöluálagning nær bæði til símtala úr og í síma í erlendu reiki. Hvað varðar móttekin símtöl þá kemur þetta verðþak til með að taka gildi á sama degi og hin nýja Evrópureglugerð tekur gildi.  Verðþak á þau símtöl sem eru framkvæmd úr síma í reiki mun sjálfkrafa taka gildi í lok 2 mánaða aðlögunarferlis.

Einnig er gert ráð fyrir að sett verði ákveðið þak á heildsöluverð sem farsímafyrirtækin leggja á hvert annað fyrir flutning á símtölum á erlendum netum. Þá er einnig tryggt að félögin geti endurheimt útlagðan kostnað með hæfilegri álagningu.

Hvað varðar verðlagningu sem liggur undir viðkomandi heildsölu- og smásöluþaki þá hafa farsímafélögin fullt frelsi til að stunda samkeppni með því að bjóða ódýrari reikigjöld í formi þjónustutilboða til handa sínum viðskiptavinum.

Í reglunum er einnig sagt til um gagnsæi reikigjalda fyrir viðskiptavini símafyrirtækjanna. Fyrirtækin verða skuldbundin til að leggja viðskiptavinum sínum til upplýsingar um viðeigandi reikigjöld þegar til áskriftar er stofnað og einnig með reglulegum upplýsingum um breytingar á gjaldskrám.

Eftirlitsstofnanir viðkomandi landa verða jafnframt beðnar um að fylgjast náið með verðlagsþróun reikigjalda fyrir SMS og skilaboðaþjónustu sem byggjast á margmiðlun (MMS).

Áður en reglurnar taka gildi þarf að leggja þær fyrir framkvæmdastjórn ESB og ríkisstjórnir landanna innan ESB.

Íslenskir neytendur munu finna fyrir áhrifum tilskipunarinnar í símtölum milli landa innan ESB strax í sumar. Reglugerðin öðlast ekki gildi hér á landi fyrr en hún hefur fengið þá málsmeðferð sem gert er ráð fyrir í EES-samningnum og tekin upp í íslensk lög.

 

Nánari upplýsingar:

 

 

Til baka