Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum

30. ágúst 2011

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 15, heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2004. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2007, sbr. ákvörðun PFS nr. 4/2007. Þar var Síminn útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið um aðgang að farsímanetum sínum.

Þar sem viðkomandi markaður er ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2008 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort hann uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Skilyrðin eru í fyrsta lagi að um sé að ræða miklar og viðvarandi aðgangshindranir og er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé uppfyllt. Í öðru lagi að markaðurinn stefni ekki í átt að virkri samkeppni. Er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé ekki uppfyllt því markaðurinn stefni að mati stofnunarinnar í átt að virkri samkeppni. Því er óþarfi að skoða þriðja skilyrðið sem er að beiting almennra reglna samkeppnisréttar nægi ekki ein og sér til að bæta úr þar sem markaðurinn hefur brugðist.

PFS hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi markaði að einu ári liðnu frá birtingu endanlegrar ákvörðunar.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 11. október 2011.

Nánari upplýsingar veita Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is) og Óskar Hafliði Ragnarsson (oskarh(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:
Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (Markaður 15) (PDF)   

Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.

 

Til baka