Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi ákvörðun PFS um dreifingu pósts frá stórnotendum

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi ákvörðun PFS um dreifingu pósts frá stórnotendum

20. apríl 2011

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 36/2010, um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum.  Með ákvörðuninni heimilaði PFS Íslandspósti að dreifa pósti frá stórnotendum á  1- 5 dögum eftir móttöku. Í ákvörðun stofnunarinnar var m.a. vísað til þess að stórnotendur fái viðbótarafslátt sem nemi allt að 11% prósentustigum ofan á hæstu afsláttarprósentu sem í gildi er fyrir almennan magnpósts. Þessi munur á afsláttarkjörum yrði ekki skýrður að öllu leyti nema með lengri dreifingartíma. Stofnunin myndi síðan taka til sérstakrar skoðunar hvert hið raunverulega kostnaðarhagræði Íslandspósts væri við að taka á móti pósti samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir m.a. að á meðan ekki liggur fyrir hvort og þá hvaða kostnaðarlegt hagræði hlýst af hinum nýju skilmálum verði ekki séð að rök standi til þess að umrædd skilmálabreyting verði heimiluð.

Nefndin hafnaði hins vegar þeim rökum kæranda að reglur stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu og andmælarétt hafi verið brotin. Jafnframt tók nefndin undir með PFS að nauðsynlegt væri að markaðurinn hér á landi fengi að þróast og Íslandspóstur fengi tækifæri til að bjóða upp á mismunandi vöruflokka, m.a. að því er varðar afhendingartíma sendinga, sem endurspeglist síðan í gjaldskrá fyrirtækisins.

Vinna við að meta hið kostnaðarlega hagræði Íslandspósts af hinu nýja dreififyrirkomulagi er nú langt komin hjá PFS, sbr. samráð PFS frá 29. júní 2010 og samráð PFS frá 10. september 2010.  Búast má við að niðurstaða liggi fyrir innan tíðar.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 10/2010 (PDF)

 

 

Til baka