Hoppa yfir valmynd

Fréttatilkynning vegna útnefningar á farsímamarkaði 16

Tungumál EN
Heim

Fréttatilkynning vegna útnefningar á farsímamarkaði 16

25. júlí 2006

Ákvörðun PFS um útnefningu Símans og Og Vodafone með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin farsímanetum og lækkun lúkningarverðs fyrir símtöl í GSM farsímanet

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstök farsímanet. Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM og NMT farsímanet og Og Vodafone með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM farsímanet.

PFS hefur ákveðið að leggja eftirfarandi kvaðir á Símann vegna NMT kerfisins: Kvöð um aðgang að NMT farsímaneti, kvöð um jafnræði og kvöð um eftirlit með gjaldskrá. Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá er lögð sú skylda á Símann að bjóða ekki hærri verð fyrir lúkningu á símtölum í NMT kerfinu en voru í gildi samkvæmt gjaldskrá þann 31. desember 2005.

Jafnframt hefur PFS ákveðið að leggja eftirfarandi kvaðir á bæði farsímafélögin vegna GSM farsímakerfanna: Kvöð um aðgang að GSM farsímaneti, kvöð um gagnsæi, kvöð um jafnræði, kvöð um bókhaldslegan aðskilnað og kvöð um eftirlit með gjaldskrá.

Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá í GSM farsímanetum hefur PFS ákveðið að leggja þær skyldur á farsímafélögin að lækka og jafna gjaldskrá fyrir lúkningarverð í eigin GSM farsímaneti í kr. 7,49 í fjórum jöfnum þrepum. Í dag eru lúkningarverð Símans kr. 8,92 á mínútuna og tengigjald kr. 0,68 og hjá Og Vodafone er mínútan á dagtaxta kr. 13,2 og á næturtaxta kr. 11,0 (meðallúkningarverð Og Vodafone er kr. 12,10) og tengigjald 0,99 kr. Til að tryggja jafnræði þá hefur PFS ákveðið að félögin skulu bjóða aðeins eitt verð fyrir lúkningu símtals hvort sem um dag, kvöld eða helgi er að ræða. Fyrsta lækkun á lúkningarverðum er þann 1. september nk., önnur lækkun 1. júní 2007, þriðja lækkun 1. desember 2007 og sú fjórða 1. júní 2008. Tengigjöld skulu einnig falla niður.

Borið hefur á kvörtunum frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir GSM farsímaþjónustu þegar hringt er á milli neta annars vegar og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar. Með því að jafna lúkningarverð er ein meginforsenda fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna ekki lengur til staðar.

Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og Póst- og fjarskiptastofnunar með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast, neytendum til hagsbóta.

Búast má við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á seinni hluta ársins í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins og er markaður fyrir aðgang og upphaf símtala í almenn farsímanet næstur.

Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500.

Nánar

Til baka