Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um að Tal skuli lækka verð sitt fyrir að ljúka símtölum úr öðrum kerfum

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um að Tal skuli lækka verð sitt fyrir að ljúka símtölum úr öðrum kerfum

29. maí 2012

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 2/2012, dags. 25. maí 2012, staðfesti nefndin ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 3/2012 frá því janúar sl. þar sem IP-fjarskipti ehf. (Tal) var útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímaneti félagsins. Voru viðeigandi kvaðir lagðar á fyrirtækið, m.a. um lækkun lúkningarverðs. Lúkningarverð er það verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi.

Tal hóf að veita lúkningarþjónustu haustið 2010 og höfðu kvaðir ekki hvílt á fyrirtækinu fram að töku hinnar kærðu ákvörðunar. Tal hafði boðið lúkningarþjónustu á tæpar 13 kr./mín frá upphafi og því ljóst að verulegur munur var orðinn á lúkningarverði félagsins og annarra farsímafyrirtækja, en lúkningarverð Símans og Vodafone er 4,5 kr./mín. og Nova og Alterna 6,3 kr./mín. Í hinni kærðu ákvörðun var Tali gert að lækka lúkningarverð sitt niður í 5,5 kr./mín. frá og með 1. mars 2012. Í ákvörðuninni kom einnig fram að lúkningarverð allra íslenskra farsímafyrirtækja skuli síðan vera orðið jafnt þann 1. janúar 2013, þ.e. 4 kr./mín., eða önnur upphæð sem PFS kann að ákvarða fyrir þann tíma.

Ofangreindar breytingar leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu, þegar hringt er í annað farsímafélag, verður ekki lengur til staðar. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Að mati PFS hefur átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa og hefur kostnaðinum verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- og talsímanetum. Með ákvörðun PFS sem nú hefur verið staðfest sér loks fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli.  

Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er á milli kerfa annars vegar og innan neta viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með þessari ákvörðun hverfur því ein megin forsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnsæja verðfyrirkomulagi. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem ekki þarf að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði.  Að mati PFS eru þó allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einföldun á gjaldskrám á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi.

Tal byggði kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar PFS m.a. á því að stofnunin hefði brotið gegn hinum ýmsu form- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins, eins og rannsóknarreglu, andmælarétti, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu. Eins og að ofan greinir féllst úrskurðarnefnd ekki á málatilbúnað Tals. Tal hélt því m.a. fram að félagið hefði fengið mun skemmri frest en önnur farsímafyrirtæki hafa fengið til að lækka lúkningarverð sín í fyrri ákvörðunum PFS. PFS byggði á því að þar sem Tal væri aðeins sýndarnetsaðili, þ.e. hefði aðgang að farsímasendum Símans gegn gjaldi, en ekki netrekandi þyrfti félagið ekki eins mikla meðgjöf í formi hærri lúkningargjalda og félög sem hefðu byggt upp farsímanet sín frá grunni og lagt út í miklar fjárfestingar, eins og t.d. Nova. Úrskurðarnefnd staðfesti þennan skilning PFS, auk þess sem nefndin taldi stofnunina ekki hafa gengið of langt við útfærslu á lækkunarferli Tals, eins og félagið hélt fram í kæru sinni.   

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2012 (PDF)

 

 

Til baka