Hoppa yfir valmynd

Kröfu Símans um dráttarvexti hafnað í Hæstarétti

Tungumál EN
Heim

Kröfu Símans um dráttarvexti hafnað í Hæstarétti

23. maí 2013

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í október sl. þar sem íslenska ríkið og Póst- og fjarskiptastofnun til vara eru sýknuð af kröfu Símans hf. um greiðslu á dráttarvöxtum vegna meints greiðsludráttar á fjárframlagi að upphæð 163.233.277 kr. úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem ákvarðað var með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskiptamála nr. 1/2007 frá 10. október 2007.

Þegar fyrrnefndur úrskurður úrskurðarnefndar var kveðinn upp lá fyrir að ekki voru til fjármunir í jöfnunarsjóði alþjónustu til að inna gjaldið af hendi, heldur þurfti Póst- og fjarskiptastofnun að grípa til sérstakra ráðstafana og gera tillögu til ráðherra, um breytt gjaldhlutfall fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu til að fjármagna umrædda útgreiðslu úr sjóðnum, sem hann síðan legði fram með frumvarpi til samþykktar á Alþingi.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar er það niðurstaða hans að túlka verði 3. mgr. 22. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 á þá leið að forsenda fyrir greiðslum úr jöfnunarsjóði alþjónustu sé sú að til sé fé í sjóðnum af innheimtu jöfnunargjaldi til að standa undir greiðslunum (þ.m.t. dráttarvöxtum), enda sé sá skilningur í samræmi við að í fyrirkomulagi sjóðsins felist innbyrðis jöfnun kostnaðar milli fjarskiptafyrirtækja. Var því ekki fallist á að lagalegar forsendur væru til staðar til þess samþykkja kröfu Símans hf. um dráttarvexti.  

Þetta er í annað sinn sem mál þetta kemur til úrskurðar í Hæstarétti, en með úrskurði hans í máli nr. 500/2010 var kröfu Símans hf. vísað frá héraðsdómi vegna skorts á aðildarhæfi jöfnunarsjóðs alþjónustu.  

Dóm Hæstaréttar Íslands nú má lesa í heild sinni á vef réttarins. Sjá dóm Hæstaréttar nr. 15/2013.

 

 

 

Til baka