Hoppa yfir valmynd

Nýtt á vef PFS: Upplýsingar um jarðvegsframkvæmdir veitufyrirtækja sem hugsanlega er hægt að samnýta fyrir lagningu fjarskiptavirkja

Tungumál EN
Heim

Nýtt á vef PFS: Upplýsingar um jarðvegsframkvæmdir veitufyrirtækja sem hugsanlega er hægt að samnýta fyrir lagningu fjarskiptavirkja

8. maí 2013

Póst- og fjarskiptastofnun mun framvegis birta á vef sínum tilkynningar veitufyrirtækja um jarðvegsframkvæmdir á þeirra vegum sem hugsanlegt er að fjarskiptafyrirtæki geti samnýtt til að koma fyrir nýjum fjarskiptavirkjum.  Verða tilkynningarnar einnig sendar með tölvupósti til netrekenda.

Þessi nýja þjónusta stofnunarinnar er til komin vegna breytinga á fjarskiptalögum sem samþykktar voru í júní sl.  Í 36. grein laganna, sem fjallar um aðskilnað sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi, er fjarskiptafyrirtækjum gert heimilt, þar sem strjálbýli er og vegalengdir miklar, að að óska eftir samnýtingu við jarðvegsframkvæmdir veitufyrirtækja til að koma samhliða fyrir fjarskiptavirkjum. Fyrst og fremst eru það jarðlínulagnir á borð við ljósleiðara sem notið geta góðs af slíkum framkvæmdum, sem geta verið í formi skurða eða annars konar aðstöðu.

Þegar um slíka samnýtingu er að ræða er gert ráð fyrir því að kostnaðarhlutdeild vegna fjarskiptahlutans sé einungis reiknuð sem viðbótarkostnaður við heildarkostnað framkvæmdanna. Veitufyrirtæki sem með jarðvegsframkvæmdum býr til aðstöðu fyrir vatns- og/eða raflagnir er heimilt að verða við slíkum beiðnum, enda skuli gætt að því að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfseminni eða verndaðri starfsemi.

Kostnaðarskipting er háð því skilyrði að fjarskiptafyrirtækjum bjóðist opinn heildsöluaðgangur að þeim fjarskiptavirkjum sem þannig eru byggð. Gjald fyrir aðganginn skal reikna út frá kostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu. Verði ágreiningur um hvernig skuli reikna kostnaðarhlutdeild fjarskiptahlutans sem viðbótarkostnað af heildarkostnaði framkvæmda eða um gjald fyrir heildsöluaðgang sker Póst- og fjarskiptastofnun úr um hann.

Veitufyrirtækjum er gert að tilkynna fyrirhugaðar framkvæmdir með hæfilegum fyrirvara, að lágmarki tveimur mánuðum, og skal netrekendum almennra fjarskiptaneta gefinn kostur á því að koma fyrir sínum eigin fjarskiptavirkjum á sömu kjörum ef það er tæknilega mögulegt.
    
Það er von Póst- og fjarskiptastofnunar að ofangreind úrræði muni koma til með að stuðla að hraðari uppbyggingu fjarskiptainnviða á landsbyggðinni en ella hefði orðið og bæta þar með þá fjarskiptaþjónustu sem íbúum á afskekktum svæðum stendur til boða.

Nú þegar hefur tilkynning um eina framkvæmd af þessu tagi verið send netrekendum, en RARIK hefur tilkynnt PFS um fyrirhugaða ljósleiðaraframkvæmd á milli Blönduóss og Skagastrandar.

Sjá nánar:
Tilkynningar frá veitufyrirtækjum um jarðvegsframkvæmdir sem hægt er að samnýta til að koma fyrir fjarskiptavirkjum.

 

 

Til baka