Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum vefsíðum

Tungumál EN
Heim

PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum vefsíðum

14. apríl 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 8/2011 í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum. Alls höfðu stofnuninni borist þrjár kvartanir vegna þess að Síminn og Vodafone höfðu lokað fyrir umferð um vefsíðuna www.slembingur.org, auk þess sem sú lokun hafi einnig hamlað umferð um aðrar vefsíður.

Forsaga málsins er sú að Ríkislögreglustjóri, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Samtökin Barnaheill, Heimili og skóli, SAFT, Lýðheilsustöð, Umboðsmaður barna og Stígamót skoruðu á fjarskiptafyrirtækin að loka fyrir aðgang að vefsíðunni þar sem hún innihéldi ólöglegt efni.

Samkvæmt lögum nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun er stofnuninni falið að annast framkvæmd laga um fjarskipti nr. 81/2003.
Í ákvörðun sinni kemst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að stofnunin sé ekki til þess bær að skera úr um það hvort umræddar lokanir, sem gerðar voru vegna efnisinnihalds vefsíðunnar www.slembingur.org, hafi farið í bága við lög og stjórnarskrárvarin réttindi um tjáningarfrelsi. Þessi niðurstaða er í samræmi við 5. mgr. 1. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti þar sem segir að fjarskiptalög gildi ekki um innihald efnis sem sent er eða móttekið á fjarskiptanetum.

Á hinn bóginn hafa fjarskiptalögin að geyma tilteknar öryggis- og gæðakröfur t.d. hvað varðar umferðarstýringar fjarskipta. Í samræmi við lögin voru árið 2007 settar reglur nr. 1223/2007 um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu.  Þar er gerður sá fyrirvari að réttur til aðgangs að efni á almennum fjarskiptanetum feli í sér notkun á löglegri þjónustu.  Mat á því hvað telst löglegt efni er hins vegar ekki í höndum PFS.

Ákvæði fjarskiptalaga og reglna sem settar hafa verið á grundvelli þeirra standa því ekki í vegi fyrir því að lokað sé fyrir efni á almennum fjarskiptanetum eða aðgangur takmarkaður, enda séu skilyrði fyrir takmörkun tjáningarfrelsis uppfyllt, samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, og farið eftir upplýsinga- og tilkynningaskyldu samkvæmt 21. gr. reglna nr. 1223/2007.


Sjá nánar:
Ákvörðun PFS nr. 8/2011 - Kvörtun vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum (PDF)


 

Til baka