Hoppa yfir valmynd

Allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins í Tyrklandi 6. - 24. nóvember 2006

Tungumál EN
Heim

Allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins í Tyrklandi 6. - 24. nóvember 2006

3. nóvember 2006

Dagana 6. – 24 nóvember sitja fulltrúar Póst- og fjarskiptastofnunar 17. allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins,  ITU (International Telecommunication Union ), í Antalya í Tyrklandi.
Alþjóðafjarskiptasambandið er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna og er sá sameiginlegi samstarfsvettvangur sem hefur gert mönnum kleift að þróa nútíma samskiptaleiðir á heimsvísu eins hratt og raun ber vitni.
Sambandið heldur allsherjarþing á fjögurra ára fresti þar sem mörkuð er sú stefna sem fylgt er í fjarskiptamálum á alþjóðlega vísu.  Að þessu sinni munu um 2000 fulltrúar opinberra aðila og einkafyrirtækja á fjarskiptamarkaði, auk fulltrúa svæðisbundinna og alþjóðlegra samtaka og stofnana, sitja þingið.

Starf Alþjóðafjarskiptasambandsins er þríþætt og skiptist í svið radíófjarskipta (ITU-R), stöðlun í fjarskiptum (ITU-T) og aðstoð og ráðgjöf við þróunarlöndin á sviði fjarskipta (ITU-D).   Starfsemin tekur til allra þátta fjarskipta, allt frá því að setja staðla sem tryggja að samskiptatæki og -kerfi geti virkað hnökralaust á alþjóðlega vísu, til þess að samræma samskipti þráðlausra kerfa og hanna kerfi til að bæta og styrkja innviði fjarskipta.
Póst- og fjarskiptastofnun sér um dagleg samskipti og samstarf við sambandið fyrir Íslands hönd. 

Á þeim þremur vikum sem þing Alþjóðafjarskiptasambandsins stendur munu fulltrúar þurfa að koma sér saman um fjölmörg úrlausnarefni varðandi hlutverk og starfsemi sambandsins næstu fjögur ár og til framtíðar.  Þau málefni sem talið er að verði efst á baugi eru m.a. endurskoðun á skipulagi ITU með tilliti til hinnar hröðu þróunar á sviði fjarskipta.  Einnig verður rætt um hlutverk sambandsins í framkvæmd og útfærslu þeirra markmiða sem sett voru á Heimsráðstefnunni um upplýsingasamfélagið, WSIS (World Summit on the Information Society), sem haldin var á vegum Sameinuðu þjóðanna í Genf 2003 og Túnis 2005.

Til baka