Hoppa yfir valmynd

Íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það beri skaðabótaskyldu

Tungumál EN
Heim

Íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það beri skaðabótaskyldu

28. september 2010

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 27. september 2010, var íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það bæri skaðabótaskyldu vegna kostnaðar sem fyrirtækið varð fyrir þegar það þurfti að endurnýja nokkra senda í kjölfar þess að þurfa hætta notkun á tilteknu tíðnisviði.

Forsögu málsins má rekja til þess að tiltekin tíðnisvið voru á alþjóðavísu skilgreind til notkunar fyrir þriðju kynslóða farsíma (3G farsímaþjónusta). Voru þessar alþjóðasamþykktir innleiddar í íslenskan rétt, m.a. með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en þar voru þessi sömu tíðnisvið sérstaklega skilgreind fyrir 3G farsímaþjónustu. Hins vegar var ljóst að umrædd tíðnisvið höfðu frá fyrri tíð verið notuð fyrir fastasambönd (e. fixed links) og voru nokkur slík sambönd enn í notkun þegar lögin voru samþykkt.

Í ljósi þess að ekki er hægt að starfrækja 3G farsímaþjónustu og nota fastasambönd samhliða á sama tíðnisviði, vegna hættu á skaðlegum truflunum, hóf Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að afturkalla tíðniréttindi til fastasambanda, sem þá voru fyrst og fremst á hendi Símans hf. og síðar Mílu ehf. Var það fyrst gert með gert með ákvörðun nr. 7/2007 og síðan aftur með ákvörðun nr. 10/2008.

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 var ákvörðun PFS nr. 10/2008 felld úr gildi, þar sem talið var að ákvörðun stofnunarinnar um afturköllun réttindanna skorti næga lagastoð. Ekki var fallist á varakröfu PFS um viðurkenningu á því að stofnunin hefði heimild til að breyta umræddum réttindum.

Í kjölfar þessa höfðaði Míla ehf. mál gegn íslenska ríkinu þann 6. október 2009 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þess vegna þess kostnaðar sem fyrirtækið hafði orðið fyrir við að endurnýja þau fastasambönd sem það hafði tekið úr notkun samkvæmt hinni ógildu ákvörðun PFS. Um kröfu Mílu ehf. kemst héraðsdómur að eftirfarandi niðurstöðu:

„Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau hafa verið rakin hér að framan, verður að telja að til þess hefði ávallt komið að hreinsa þyrfti hin umræddu tíðnisvið af ástæðum sem þegar hefur verið lýst og verða að teljast réttmætar. Hér verður að líta svo á að það hafi verið gert með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en í 2. mgr. 1. gr. segir að lögin taki til úthlutunar tíðna til starfrækslu farsímaneta á tíðnisviðum 1900-1980 MHz, 2010-2005 MHz og 2110-2170. Af þessu leiddi að ekki var lengur unnt að nota þau tíðnisvið fyrir fastasambönd, eins og verið hafði, en þau þurfti að rýma vegna þriðju kynslóðar farsíma. Lagasetningin leiddi því til þess að grípa þurfti til breytinga á tækjabúnaði þeirra sem höfðu átt réttindi á þessum tíðnisviðum fyrir fastasambönd. Við þessar aðstæður verður að líta þannig á að þarna hafi verið um eðlilegan kostnað að ræða sem fylgir óhjákvæmilegum breytingum og tæknilegri þróun sem stefndi getur ekki borið skaðabótaábyrgð á gagnvart þeim sem þar áttu hlut að máli.
Með vísan til þessa og annars sem liggur fyrir í málinu verður ekki talið að nægileg tengsl séu á milli þess að úrskurðarnefndin taldi hina umdeildu ákvörðun skorta lagastoð og kostnaðar stefnanda. Þar með er ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að kostnaðurinn sé til kominn vegna þess að hin umdeilda ákvörðun, um að afturkalla tíðniréttindi fyrir ákveðin fastasambönd stefnanda, hafi verið ólögmæt. Verður af þessum sökum að hafna því að hin meinta ólögmæta ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda sem varði stefnda skaðabótaskyldu að lögum. Með vísan til þess ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.“

Sjá dóm héraðsdóms í heild

Sjá einnig:

Ákvörðun PFS nr. 10/2008 - Afturköllun tiltekinna tíðniréttinda Mílu ehf. fyrir fastasambönd á tíðnisviðum fyrir þriðju kynslóð farsíma - 9. maí 2008 (PDF)

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 (PDF)

 

Til baka