Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur

31. maí 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2010 um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur sf. (OR) og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR). Í ákvörðun stofnunarinnar er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að GR þurfi að fá fyrirfram samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningum sem OR, eða annað fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðunnar, er greiðandi að. PFS samþykkir því aðeins slíka hlutafjáraukningu að hún rúmist innan eðlilegs fjárhagslegs aðskilnaðar og feli ekki í sér að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi. Ennfremur að skammtímaskuldir GR við OR, eða önnur félög innan samstæðunnar, megi ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur tveggja mánaða eðlilegum viðskiptum milli aðilanna á hverjum tíma, eins og um ótengda aðila sé að ræða.

Eftirlit með fjárhagslegum aðskilnaði hjá ofangreindri fyrirtækjasamstæðu, og öðrum sambærilegum aðilum, er viðvarandi verkefni stofnunarinnar, sbr. 36. gr. fjarskiptalaga. Ofangreind ákvörðun er sú þriðja í röðinni sem snýr að fjarskiptastarfsemi samstæðunnar. Hinar voru frá árunum 2006 og 2008. Í ákvörðun PFS nr. 14/2010 leggur PFS ofangreindar kvaðir á GR þar sem niðurstaða stofnunarinnar var á þá leið að framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði á fjarskiptastarfsemi OR, sem rekin er í dótturfélaginu GR, frá annarri og sérleyfisbundinni starfsemi samstæðunnar, væri ófullnægjandi varðandi umrædd tvö atriði.

PFS mun í framhaldi af ákvörðun þessari kanna hvort uppfærð arðsemiskrafa OR/GR, frá því í mars 2010, og áætlanir félaganna um þróun hennar á næstu árum teljist eðlileg miðað við aðstæður og samræmist eðlilegri fjárhagslegri aðgreiningu. Ennfremur mun stofnunin rannsaka og leggja mat á hvort hlutafjáraukning sú sem samþykkt var á hluthafafundi í GR í desember 2008 brjóti í bága við 36. gr. fjarskiptalaga um fjárhagslegan aðskilnað og/eða tilmæli þau sem PFS hefur beint að fyrirtækjunum í fyrri ákvörðunum sínum. Þá mun PFS skoða önnur atriði er varða fjárhagslegan aðskilnað innan samstæðunnar eftir því sem þurfa þykir um leið og ástæða þykir til.

Ákvörðun PFS í heild:
Ákvörðun PFS nr. 14/2010 Um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur s.f. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (PDF)

 

Eldri ákvarðanir PFS varðandi fjarskiptastarfsemi OR (PDF skjöl):

 

Til baka