Hoppa yfir valmynd

Rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir 4G hafið hjá PFS

Tungumál EN
Heim

Rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir 4G hafið hjá PFS

11. febrúar 2013

Í dag kl. 13:00 hófst rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir 4G á sérstökum uppboðsvef Póst- og fjarskiptastofnunar.  Þetta er í fyrsta sinn sem slík aðferð er notuð til að úthluta notkunarheimildum á þeirri auðlind sem tíðnisviðið er. Fjórir aðilar sendu inn þátttökubeiðni í uppboðinu og uppfylltu þeir allir þau skilyrði sem sett voru fyrir þátttökunni. Það eru því 365 Miðlar ehf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og Síminn hf. sem taka þátt.

Alls er um að ræða tíu tíðniheimildir. Boðin verða upp 60 MHz (2x30 MHz) í samtals fimm tíðniheimildum á 800 MHz tíðnisviðinu og 50 MHz (2x25 MHz) í fimm tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Tíðniheimildir á 1800 MHz verða tæknilega hlutlausar. Tíðniheimildirnar á 800 MHz tíðnisviðinu heimila notkun á hlutaðeigandi tíðnum fyrir farnetsþjónustu og eru bundnar ákveðnum lágmarkskröfum um útbreiðslu og uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu.

Réttur þátttakenda til að bjóða í tilteknar heimildir fer að hluta til eftir þeim tíðniheimildum sem þeir hafa fyrir samkvæmt reglum sem koma fram í skilmálum uppboðsins (Sjá PDF skjal hér fyrir neðan)

Samkvæmt skilmálum uppboðsins og ákvæðum fjarskiptalaga eru fjárhæðir lágmarksboða í tíðniheimildir 5.000.000,- kr. fyrir 2x5 MHz til 10 ára á 1800 MHz tíðnisviðinu (F-J), 20.000.000,- kr fyrir 2x5 MHz til 10 ára á 800 MHz tíðnisviðinu (B-E) og 100.000.000,- kr. fyrir 2x10 MHz til 25 ára á 800 MHz tíðnisviðinu (A)

Andstætt venjulegum uppboðum verða bjóðendur ekki í kapphlaupi við tímann því uppboðið fer fram í umferðum sem hver tekur 120 mínútur. Verða tvær umferðir farnar á dag.  Ef bjóðandi nær ekki að setja inn boð í tiltekinni umferð getur hann gert það í þeirri næstu og þar með heldur uppboðið áfram þar til engin boð berast. Uppboðinu lýkur með niðurtalningaraðferð þannig að þegar farnar hafa verið fjórar umferðir þar sem engin boð berast verður uppboðssvæðinu lokað og úrvinnsla PFS hefst.

Eftir að uppboði lýkur áskilur PFS sér frest í þrjár vikur til að fara yfir niðurstöður uppboðsins og mun að því loknu úthluta þeim 10 tíðniheimildum sem um ræðir til hæstbjóðenda samkvæmt skilmálum uppboðsins.

Þeir fjármunir sem fást fyrir tíðniheimildirnar munu renna í fjarskiptasjóð.

Sjá nánar:
Skilmálar uppboðs á tíðniréttindum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum (PDF)

 

 

Til baka