Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu

10. september 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) efnir til samráðs við hagsmunaaðila vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur boðað á skilmálum fyrirtækisins um póstþjónustu.
Með bréfi, dags. 8. september 2010 tilkynnti Íslandspóstur Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hygðist breyta bréfadreifingu fyrirtækisins með því að taka upp svokallað XY-fyrirkomulag. Um nánari lýsingu á fyrirkomulaginu vísast til erindis Íslandspósts (sjá neðar). Með tilkynningu Íslandspósts fylgdi afrit af fyrirhuguðum skilmálum.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 skulu póstrekendur birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustuna gilda. Nýja og breytta skilmála skal senda Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Ákvæðið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að PFS samþykki fyrirfram nýja eða breytta skilmála áður en þeir taka gildi, sbr. ákvörðun PFS nr. 1/2010. Stofnunin getur hins vegar hvenær sem er krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfis.

Vegna þessa hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaðila varðandi þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hálfu Íslandspósts.

Þar sem hagsmunaðilar hafa að einhverju leyti þegar tjáð sig um umræddar breytingar, sbr. samráð PFS frá 29. júní s.l. er frestur gefinn til 24. september n.k. til að koma með athugasemdir við tilkynntar breytingar.

Til að auðvelda vinnu PFS við yfirferð athugasemda skal vísa til viðeigandi skilmála með númeri og/eða til þess orðalags skilmála sem verið er að gera athugasemdir við í hvert sinn.

Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldinu fara yfir þær athugasemdir sem fram kunna að koma og taka formlega ákvörðun um efnisatriði þeirra skilmála sem nú hafa verið birtir af hálfu Íslandspósts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

 

Bréf Íslandspósts, dags. 8. september 2010 (PDF)

Fyrirhugaðir viðskiptaskilmálar Íslandspósts (PDF) (Breytingar í skjalinu eru merktar með gulu)

 

 

Til baka