Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir tvær ákvarðanir PFS í póstmálum

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir tvær ákvarðanir PFS í póstmálum

15. september 2010

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 16/2010 er varðaði staðsetningu bréfakassa í fjölbýlishúsinu [x]. Málavextir voru þeir að fjölbýlishúsið var hannað með svokölluðum opnum svalagöngum en þrjú sameiginleg hálflokuð stigahús leiða íbúa og gesti hússins inn á svalaganganna. Inngangur var síðan í hverja íbúð frá svalagöngunum. Í málinu var m.a. deilt um það hvort Íslandspósti bæri að ganga upp á allar hæðir hússins og afhenda póst inn um bréfalúgur á hverri hurð fyrir sig. Í málinu lá fyrir umsögn byggingarfulltrúans í Reykjavík um túlkun á grein 80.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í henni kemur m.a. fram að þar sem fleiri en þrjár íbúðir hússins að [x] hafi aðgengi um hvert stigahús eigi bréfakassar að vera staðsettir á jarðhæð í hverju húsi. Með hliðsjón af þessu áliti var það niðurstaða PFS að bréfakassar fyrir fjölbýlishúsið skyldu vera í hinu opna stigarými sem samtengt er og notað sem uppgangur í íbúðir á 2. og 3. hæð hússins. Var sú niðurstaða staðfest fyrir úrskurðarnefnd. Þá tók nefndin einnig undir það sjónarmið PFS að það væri ekki á valdsviði stofnunarinnar að skýra ákvæði byggingarreglugerðar og þar með að meta hvort einstök hús uppfylltu hana eða ekki.

 Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2010 (PDF)


Þá hefur úrskurðarnefndin einnig staðfest ákvörðun PFS nr. 17/2010 er varðaði afhendingardrátt á póstsendingu.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2010 (PDF)

 

 

Til baka