Hoppa yfir valmynd

PFS kveður á um breytingar á viðmiðunartilboðum um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímakerfi Símans

Tungumál EN
Heim

PFS kveður á um breytingar á viðmiðunartilboðum um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímakerfi Símans

18. maí 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 15/2012 þar sem stofnunin kveður á um tilteknar breytingar á viðmiðunartilboðum Símans um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímakerfum félagsins. Auk þess kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn gagnsæiskvöð á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (markaður 15) sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 4/2007 með því að fjarlægja umrædd viðmiðunartilboð af heimasíðu félagsins á tímabilinu janúar 2010 til apríl 2011.

Ákvörðun þessi tengist ákvörðun PFS nr. 13/2012, frá 7. maí s.l., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að símtöl á milli viðskiptavina Símans og viðskiptavina Tals væru utankerfissímtöl en ekki innankerfissímtöl eins og Síminn hafði haldið fram. Því bæri að innheimta gagnkvæma lúkningu á milli félaganna. Sýndarnet Tals, sem hýst er í farsímakerfi Símans, var því talið sjálfstætt farsímakerfi. Með ákvörðunum PFS nr. 19/2009 og nr. 20/2009 hafði PFS samþykkt viðmiðunartilboð Símans fyrir endursölu- og sýndarnetsaðgang með tilteknum breytingum. Þann 10. janúar 2010 gerðu Síminn og Tal með sér samning um sýndarnetsaðgang Tals að farsímaneti Símans. Umræddur samningur vék í veigamiklum atriðum frá áður samþykktu viðmiðunartilboði um sýndarnetsaðgang. Því lagði PFS fyrir Símann að breyta viðmiðunartilboði sínu til samræmis við umræddan sýndarnetssamning við Tal. Með þeim breytingum sem PFS hefur nú kveðið á um telur stofnunin að fullt jafnræði sé komið á milli umrædds samnings og umrædds viðmiðunartilboðs.

Síminn skal birta hin uppfærðu viðmiðunartilboð um endursölu- og sýndarnetsaðgang eigi síðar en 1. júní n.k. PFS vekur þó athygli á því að samkvæmt ákvörðun PFS nr. 11/2012, frá 30. mars sl., nýtur Síminn ekki lengur umtalsverðs markaðsstyrks á ofangreindum markaði 15. Engu að síður gilda kvaðir á Símann á viðkomandi markaði áfram til 30. september n.k., að undanskilinni aðgangskvöð sem gildir til 30. mars 2013.      

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðauka:
Ákvörðun PFS nr. 15/2012 ásamt viðauka með fyrirmælum PFS um breytingar á umræddum viðmiðunartilboðum (PDF)

 

 

Til baka