Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum

3. nóvember 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum. Er það niðurstaða ákvörðunarinnar að ákvæði í verklagsreglum Símans um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna sé ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti sem kveður á um hámarksvarðveislutíma fjarskiptaumferðarupplýsinga.

Samkvæmt ákvæði í verklagsreglum Símans eru upplýsingar varðandi fjarskiptaumferð viðskiptavina Símans varðveittar í 12 mánuði, óháð því hvort reikningur fyrir þjónustuna hafi verið greiddur eða ekki. Er það í samræmi við þann skilning sem Síminn hefur lagt í ofangreint ákvæði fjarskiptalaga að fyrirtækinu sé heimilt að geyma þessar upplýsingar þar til ekki sé lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist, óháð því hvort reikningur hafi verið greiddur eða ekki.

Hvaða tímamark eigi að gilda sem almennur hámarks varðveislutími er að  nokkru leyti matskennt en Póst- og fjarskiptastofnun telur að Símanum beri að afmarka varðveislutíma upplýsinganna á sjálfstæðan hátt, eingöngu með tilliti til brýnnar nauðsynjar þess að geta brugðist við vefengingu reiknings innan hæfilegs tíma frá því hann var greiddur, en geti ekki horft til almenns fyrningartíma viðskiptakrafna. Telur stofnunin að 6 mánaða varðveislutími fjarskiptaumferðarupplýsinga vegna reikningagerðar og mögulegrar vefengingar á þeim sé nægjanlegur, hófsamur og sanngjarn.

Með ákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Símans að aðlaga verklagsreglur fyrirtækisins um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna til samræmis við ofangreinda túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar á ákvæði 42. gr. fjarskiptalaga.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum (PDF)

 

 

Til baka