Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti

24. febrúar 2010

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur birt úrskurð sinn í máli nr. 5/2009 þar sem farið var fram á að nefndin sneri við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 22/2009 um óumbeðin fjarskipti.

Málið varðaði tölvupóstsendingar sem sendar voru kvartanda frá vefsíðunni www.hinhlidin.com og hann kærði sig ekki um að móttaka. Hafði kvartandi árangurslaust reynt að frábiðja sér endurteknar sendingar. Taldi hann sendingarnar varða við ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga sem fjallar um óumbeðin fjarskipti og kvartaði til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).

Í ákvörðun sinni nr. 22/2009 taldi PFS að umræddir tölvupóstar uppfylltu ekki skilyrði 46. gr. fjarskiptalaga um að teljast bein markaðssetning. Af þeim sökum bryti sending tölvupóstanna ekki í bága við umrætt ákvæði fjarskiptalaga. 

Kærandi vísaði þá málinu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði sínum kemst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu, með tilliti til allra lögskýringargagna sem lágu fyrir í málinu, að túlka bæri hugtakið bein markaðssetning rúmt. Í  niðurstöðu úrskurðarnefndar segir m.a.:

„Hins vegar telur nefndin ekki fært að líta fram hjá því að ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga og afskipti fjarskiptayfirvalda vegna þess ákvæðis, eru bundin við það að hin óumbeðnu fjarskipti feli í sér beina markaðssetningu á einhvern hátt. Hlutverki heimasíðunnar www.hinhlidin.com er þannig lýst á síðunni sjálfri að henni sé ætlað að vera „baráttusíða fyrir réttindum barna á Íslandi“. Heimasíðan hefur að geyma umfjöllun um úrskurði yfirvalda og eftir atvikum dómstóla í málefnum barna, tiltekinna einstaklinga sem tjáð hafa sig um málefni barna, eftir atvikum starfs síns vegna, önnur félagasamtök sem starfa eða hafa starfað að málefnum barna, hvort heldur sem er á sviði ofbeldis gegn börnum, forsjár- eða umgengnismálefnum. Þá eru tilteknir aðilar taldir upp á svokölluðum „svörtum lista“ á heimasíðunni, þar sem m.a. er að finna nafngreinda kennara, skólastjórnendur og blaðamenn. Þá virðast póstsendingar þeirra sem frábiðja sér tölvupóst þeirra er standa að síðunni, vera birtar á heimasíðunni, án þess að tekið sé tillit til óska þeirra um að verða fjarlægðir af póstlista.

Tölvupóstar og eftir atvikum heimasíðan sjálf fela ekki í sér beiðni eða tilboð til viðtakenda um að styðja þá er standa að síðunni á neinn hátt, né heldur málstað þeirra. Hin óumbeðnu fjarskipti er lúta að kæranda virðast fyrst og fremst snúast um það að þvinga sjónarmiðum aðstandenda síðunnar upp á kæranda og jafnframt gefa þá mynd af honum á heimasíðunni að hann standi fyrir ákveðin viðhorf um réttindi barna sem séu aðstandendum síðunnar ekki þóknanleg. Notkun tölvupóstfangs kæranda með þessum hætti getur hins vegar að mati úrskurðarnefndar ekki fallið undir hugtakið beina markaðssetningu í skilningi 46. gr. fjarskiptalaga, þrátt fyrir rúma skýringu þess hugtaks sbr. framangreint og þrátt fyrir að umræddar póstsendingar séu óumbeðnar.

Með vísan til alls framangreinds ber því að hafna kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun.“

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í heild: Úrskurður í máli nr. 5/2009 (PDF)

 

 

Til baka