Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á smásölumörkuðum fyrir talsíma

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á smásölumörkuðum fyrir talsíma

30. nóvember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir talsíma, bæði varðandi aðgang að fasta almenna talsímanetinu og almenna talsímaþjónustu.

Í fyrsta lagi er um að ræða markað 1 í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008, þ.e. smásölumarkað fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki. Í öðru lagi er um að ræða markaði 3-6 í eldri tilmælum ESA frá 2004, þ.e. smásölumarkaði fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti til heimila og fyrirtækja, bæði vegna innanlands- og millilandasímtala.

Umræddir markaðir voru síðast greindir með ákvörðun PFS nr. 30/2008 frá 5. desember 2008. Síminn var þar útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðunum. Heildsölukvaðir voru lagðar á Símann á núverandi markaði 1 (áður markaðir  1 og 2), m.a. um veitingu forvals/fasts forvals og línuleigu í heildsölu (e. Wholesale line rental). Síðastgreinda kvöðin veitti þjónustuveitendum færi á að kaupa aðgang að línum í heildsölu hjá Símanum þannig að þeir gætu gert viðskiptavinum sínum í talsímaþjónustu einn reikning bæði fyrir aðganginn að talsímanetinu og fyrir talsímaþjónustu (e. Single billing). Áður en þessi kostur gafst sendi Síminn umræddum viðskiptavinum ávallt mánaðarlegan reikning fyrir aðganginn að talsímanetinu. Eftir þetta upplifir viðskiptavinurinn sig eingöngu sem viðskiptavin viðkomandi þjónustuveitanda varðandi talsímaþjónustuna. Engar smásölukvaðir voru hins vegar lagðar á Símann á eldri mörkuðum 3-6, þar sem PFS taldi framangreindar heildsölukvaðir duga, ásamt heildsölukvöðum sem lagðar væru á Símann og Mílu á fjölmörgum öðrum fjarskiptamörkuðum.

Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 1 (aðgangur að talsímakerfinu). PFS hyggst viðhalda þeim kvöðum sem lagðar voru á Símann á þeim markaði árið 2008. Það er hins vegar fyrirhuguð niðurstaða PFS að virk samkeppni ríki á mörkuðum 3-6 (talsímaþjónusta) og hyggst stofnunin aflétta útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum við birtingu endanlegrar ákvörðunar.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 4. janúar n.k.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson, netfang: ragnar(hjá)pfs.is.

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjöl:

Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum

 

 

Til baka