Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um fölsun Hringdu á uppruna A-númers

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um fölsun Hringdu á uppruna A-númers

13. nóvember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 33/2012, vegna kvörtunar um fölsun Hringdu ehf. á uppruna númers sem birtist á skjá viðtakanda símtals (A-númers). Telur kvartandi að starfsmaður á vegum Hringdu hafi látið símanúmer sitt birtast, án þess að hafa til þess heimild, þegar Hringdu hafði samband við starfsmann Vodafone, en kvartandi er sjálfur starfsmaður Vodafone. Telur kvartandi að með þessu hafi starfsmaður Hringdu verið að beita röngu auðkenni/númeri í þeim tilgangi að blekkja móttakanda símtals. Taldi kvartandi þessa háttsemi brjóta gegn 51. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og 3. gr. reglna nr. 629/2008 um fyrirkomulag númerabirtingar.

PFS tiltekur í ákvörðun sinni að skýrar reglur gildi að því er varðar fyrirkomulag númerabirtingar sbr. 51. gr. fjarskiptalaga og reglur nr. 629/2008, en í þeim er beinlínis kveðið á um það að óheimilt sé að nota röng auðkenni eða númer í þeim tilgangi að blekkja móttakanda símtals eða SMS-sendingar. Umrædd regla feli í sér það markmið að tryggja vernd og réttleika upplýsinga, auk þess að vernda persónuupplýsingar, en símanúmer og upplýsingar sem því tengjast falla óneitanlega undir slíkar upplýsingar.

PFS bendir ennfremur á að fjarskiptafyrirtækjum ber að grípa til ráðstafana með það að markmiði að tryggja vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum eins og kveðið er á um í reglum nr. 1221/2007.

Ekki var uppi ágreiningur í málinu um hvort háttsemi af hálfu starfsmanns Hringdu hafi leitt til þess að rangt símanúmer birtist á skjá viðtakanda í viðkomandi símtali. Hringdu viðurkenndi að viðkomandi atvik hefði átt sér stað en hélt því þó fram að um mistök hefði verið að ræða sem rekja mætti til „innri prófana“ hjá félaginu vegna tilkomu nýrrar símstöðvar. PFS taldi hins vegar ekki hægt að ráða af skýringum Hringdu að fyrrgreinda háttsemi mætti rekja til einhverskonar tæknilegra mistaka af hálfu félagsins eða að fram hefðu komið einhverjar haldbærar skýringar á því hvers vegna umrætt númer kvartanda, sem er starfsmaður Vodafone, var valið og sett inn í viðkomandi prófun sem leiddi af sér umrætt brot félagsins á gildandi reglum.

Það er því m.a. niðurstaða PFS að sú háttsemi Hringdu ehf. að láta númer starfsmanns Vodafone birtast sem A-númer, þegar félagið hringdi í annan starfsmann Vodafone, hafi brotið gegn 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 629/2008, um fyrirkomulag númerabirtingar. Telur PFS umrætt atvik einnig hafa brotið gegn 47. gr. fjarskiptalaga sbr. 4. gr. reglna nr. 1221/2007, með því að ekki voru fyrir hendi viðeigandi öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að hægt væri að breyta uppruna A-númers í símtali sem hringt var út úr kerfi félagsins.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 33/2012 vegna kvörtunar um fölsun Hringdu á uppruna A-númers (PDF)

 

 

 

Til baka