Hoppa yfir valmynd

Um hámarksverð fyrir símtöl í reikiþjónustu

Tungumál EN
Heim

Um hámarksverð fyrir símtöl í reikiþjónustu

11. júlí 2011


Evrópusambandið setti reglur árið 2007 sem lögðu kvaðir á hámarkssmásöluverð sem farsímafyrirtækin mega innheimta af viðskiptavinum sínum vegna reikis og tóku þau verðþök gildi frá og með júlí 2009. Reglurnar gilda einungis um farsímafyrirtæki innan Evrópusambandsins og landa sem eru aðilar EES samningsins og reiki viðskiptavina á milli þeirra.  Reikisímtöl sem viðskiptavinir hringja utan landa evrópska efnahagssvæðisins falla því utan gildissviðs reglnanna.

Reglurnar setja verðþak í evrusentum, án virðisaukaskatts, á smásöluverð reikisímtala.  Farsímafyrirtækjum er því óheimilt að innheimta hærri gjöld af viðskiptavinum sínum fyrir reikisímtöl sem hringd eru innan evrópska efnahagssvæðisins.  Farsímafyrirtæki hvers lands bæta virðisaukaskatti á þessi verðþök samkvæmt lögum viðkomandi lands. 

Núgildandi verðþak tók gildi frá og með 1. júlí 2011 og gildir í 1 ár.

Verðþakið er 35 evrusent á mínútu fyrir hringd reikisímtöl sem hringt eru í símanúmer innan gistilands eða til annarra landa innan EES.  Fyrir móttekin símtöl er þakið 11 evrusent á mínútu.  Fyrir það að senda SMS skeyti er þakið 11 evrusent og  móttaka SMS skeyta er gjaldfrjáls.

Lönd sem nota ekki evrur sem gjaldmiðil skulu nota gengi evru þann 1. júní 2011 sem viðmiðunargengi og gildir það verð í 1 ár.  Verðþak er því fest í íslenskum krónum miðað við miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands, 1. júní 2011, kr. 165,10 og gildir það út júní 2012.

Í íslenskum krónum að virðisaukaskatti meðtöldum er verðþakið því kr. 72,52 fyrir hringd símtöl, fyrir móttekin símtöl kr. 22,79 og fyrir að senda SMS skeyti kr. 22,79.  Farsímafyrirtækjunum er að sjálfsögðu heimilt að hafa verð sín lægri en þessi hámörk.

Verðþak fyrir gagnamagn sem notað er í reiki er sett sem 50 Evru hámark á gjaldtöku í mánuði.  Viðskiptavini skal sent SMS þegar 80% af hámarkskostnaði er náð og aftur þegar lokað er fyrir gagnanotkun vegna þess að hámarki hefur verið náð.  Viðskiptavinur skal þá staðfesta samþykki sitt fyrir því að notkun sé haldið áfram.  Ekki er sett sérstök verðskrá fyrir smásöluverð fyrir hvert MB gagnamagns, eingöngu sett ofangreint hámark á heildarkostnað til að koma í veg fyrir háa reikninga sem komið geta neytendum á óvart.

Ofangreindar reglur ljúka gildistíma sínum í lok júní 2012 eftir þriggja ára tímabil lækkandi hámarksverða.

Í umræðu innan ESB eru nú nýjar reglur sem leggja það til að hámörk lækki í 24 evrusent fyrir hringd símtöl, 10 evrusent fyrir móttekin símtök og 10 sent fyrir SMS í þremur árlegum skrefum til ársins 2014.  Nýtt verðþak verði sett á smásölu gagnamagns í reiki, fyrst 90 evrusent fyrir hvert MB árið 2012 og lækki í 70 og 50 evrusent árin 2013 og 2014. Áréttað er að þetta eru enn tillögur sem ekki hafa hlotið samþykki.

Ítarefni um núgildandi reglur :
http://ec.europa.eu/information_society/activities/roaming/regulation/archives/current_rules/index_en.htm

Ítarefni um tillögur að nýjum reglum :
http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/11/835

Til baka