Hoppa yfir valmynd

PFS undirbýr reiknivél fyrir neytendur um verð á fjarskiptaþjónustu

Tungumál EN
Heim

PFS undirbýr reiknivél fyrir neytendur um verð á fjarskiptaþjónustu

26. nóvember 2009

Póst- og fjarskiptastofnun hefur um langt skeið birt mánaðarlegan verðsamanburð á þjónustu fjarskiptafyrirtækjanna hér á vefnum.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því innan stofnunarinnar að efla þessa þjónustu enn frekar með gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð á síma- og netþjónustu miðað við þrjú fyrirfram gefin notkunarstig; litla, meðal eða mikla notkun.

Fyrirmynd slíkrar reiknivélar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur.  Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar.

Við undirbúning reiknivélarinnar hefur verið lögð áhersla á samráð og upplýsingar til markaðsaðila um fyrirhugaða gerð reiknivélarinnar, bæði fjarskiptafyrirtækja og fulltrúa neytenda. Í júlí sl. voru fjarskiptafyrirtækin upplýst bréflega um að stefnt væri að því að koma reiknivélinni á Netið í lok ársins.
Þar kom m.a. fram að ekki væri ráðgert að taka tillit til pakkatilboða, vinaafslátta né samþættingu heimasíma, internets og farsímanotkunar.

Þann 10. nóvember sl. fengu fyrirtækin send gögn um reiknivélina til samráðs.  Þar voru kynntar forsendur hennar og hvernig hún yrði upp byggð.  Bréf sem fylgdi gögnunum er svohljóðandi:

Málefni: Reiknivél Póst- og fjarskiptastofnunar.

Með vísun í bréf Póst- og fjarskiptastofnunar frá 6. júlí sl., þar sem stofnunin tilkynnti að hún hefði í hyggju með haustmánuðum að setja upp reiknivél á vef stofnunarinnar. 

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú lokið áfanga við gerð reiknivélar sem reiknar út mánaðarlegan kostnað fyrir farsíma, heimasíma og internet fyrir skilgreindan notenda. Miðað er við litla, meðal eða mikla notkun notenda á þjónustu fjarskiptafélaganna. Í fyrstu er gert ráð fyrir að reiknivélin sé einföld í notkun en muni taka breytingum og þróast.  
Forsendur sem hafðar eru til hliðsjónar við útreikning á kostnaði koma fram í skjali sem inniheldur reiknivélina en þær eru helstar að ekki er gert ráð fyrir pakkatilboðum né skilyrtum afsláttum.  Notað er hringimynstur frá Teligen ásamt tölfræðigögnum frá innlendum fjarskiptafyrirtækjum.
Miðað er við að notandi hringi samkvæmt markaðshlutdeild fyrirtækja fyrir farsíma og heimasíma. Ódýrasta áskriftarleið í interneti ræðst af magni erlends niðurhals, ekki er enn tekið tillit til gæða internetssambanda í reiknivélinni.
Póst- og fjarskiptastofnun óskar eftir staðfestingu á að einingaverð og niðurstöður miðað við gefnar forsendur séu réttar fyrir
[nafn fyrirtækis].

Fengu fyrirtækin frest til 24. nóvember sl. til að skila athugasemdum. Nokkrar ábendingar hafa borist stofnuninni og verður farið yfir þær ábendingar sem berast fram á föstudag, 27 nóvember. 

Áætlað er að vefsíða reiknivélarinnar verði opnuð nú í desember þegar tekið hefur verið tillit til þeirra ábendinga sem borist hafa og tæknivinnu er lokið.

 

Til baka