Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang, með fyrirmælum um breytingar

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang, með fyrirmælum um breytingar

14. júní 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2010, frá 19. maí 2010, um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs Símans hf. um bitastraumsaðgang (markaður 12).

Með ákvörðun PFS nr. 8/2008, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang, var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 12 auk þess sem kvöð var lögð á Símann um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð um bitastraumsaðgang og tengda aðstöðu og þjónustu.
Síminn birti viðmiðunartilboð sitt um bitastraumsaðgang þann 1. júlí 2009. Bárust PFS athugasemdir vegna viðmiðunartilboðsins sem áframsendar voru Símanum og fyrirtækinu gefinn kostur á að skila inn umsögn til stofnunarinnar um þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við. Bárust stofnuninni athugasemdir Símans með bréfi þann 19. október 2009.

Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og endurskoðun PFS á viðmiðunartilboðinu var niðurstaða PFS sú að óhjákvæmilegt væri að gera breytingar á einstaka ákvæðum viðmiðunartilboðsins til að það yrði í samræmi við skilgreind markmið samkvæmt ákvörðun PFS nr. 8/2008. Með ákvörðun nr. 12/2010 samþykkir PFS viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í viðauka við ákvörðunina. PFS hafnar kröfu Símans um að verðskrá skuli bundin trúnaði og leggur fyrir fyrirtækið að birta hana sem hluta af viðmiðunartilboðinu.
Verðskrá Símans (Viðauki 1) skal vera í samræmi við ákvörðun PFS nr. 7/2010 frá og með 1. maí s.l. auk þess að innihalda heildsöluverð fyrir þær vörur sem í boði eru samkvæmt fyrirmælum PFS í kafla 5.3.1, þ.m.t. VDSL, G.SHDSL og Annex-M.

Skal Síminn uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðuninni og birta það á aðgengilegan hátt á vefsíðu sinni.

Ákvörðun PFS í heild:
Ákvörðun PFS nr. 12/2010 um viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang. (PDF)

 

Til baka