Hoppa yfir valmynd

Samráð um greiningar á þremur leigulínumörkuðum

Tungumál EN
Heim

Samráð um greiningar á þremur leigulínumörkuðum

15. júní 2006

Í samræmi við V. kafla laga um fjarskipti nr. 81/2003 ásamt síðari breytingum nr. 78/2005, skal Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) skilgreina viðeigandi þjónustu- og vörumarkaði og landfræðilega markaði á fjarskiptasviði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafa skilgreint fyrirfram 18 fjarskiptamarkaði sbr. tilmæli um viðkomandi markaði. PFS skal skv. 17. gr. fjarskiptalaga greina þessa 18 markaði, kanna hvort samkeppni á þeim sé virk og hvort þar finnist eitt eða fleiri fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur greint samkeppnina á þremur mörkuðum leigulína, smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð leigulína (markaður 7), heildsölumarkaði fyrir lúkningahluta leigulína (markaður 13) og heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14). Frumdrög greiningar og niðurstaðna PFS um framangreinda markaði eru nú lögð fram til samráðs og PFS býður fjarskiptafyrirtækjum og öðrum sem áhuga hafa á að gera athugasemdir við þau, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Frumdrögin má finna á heimasíðu PFS www.pfs.is. Vakin er athygli á því að PFS áætlar að birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og þá mun stofnunin leggja mat á þá beiðni.

Þess er vinsamlegast óskað að athugasemdir verði sendar til PFS eigi síðar en þriðjudaginn 1. ágúst nk. Þegar athugasemdir hafa borist mun PFS endurskoða greiningar á framangreindum mörkuðum með hliðsjón af framkomnu athugasemdum og útbúa á grundvelli þeirra drög að ákvörðun sem send verður ESA til samráðs, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003. Geri ESA ekki athugasemdir við markaðsgreiningar og niðurstöður PFS verður ákvörðun á þeim byggðar birtar hlutaðeigandi fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar um markaðsgreiningar veita starfsmenn PFS Birgir Óli Einarsson og Bjarni Sigurðsson. Upplýsingar um markaðgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunnar er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is.

Markaðsgreining – Smásölumarkaður fyrir lágmarksframboð af leigulínum(markaður 7), heildsölumarkaður fyrir lúkningahluta leigulína (markaður 13) og heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14) (PDF)

Til baka