Hoppa yfir valmynd

Íslandspósti gert skylt að breyta skilmálum um sérstaka farmtryggingu á bögglasendingum innanlands

Tungumál EN
Heim

Íslandspósti gert skylt að breyta skilmálum um sérstaka farmtryggingu á bögglasendingum innanlands

1. febrúar 2010

Þann 1. maí 2009, tóku gildi nýir skilmálar hjá Íslandspósti þar sem viðskiptamönnum fyrirtækisins er gert að kaupa sérstaka farmtryggingu vegna böggla sem sendir eru innanlands. Samkvæmt skilmálunum er nú lagt á 62 krónu tryggingargjald á hvert farmbréf með bögglum sem sendir eru innanlands.

Póst- og fjarskiptastofnun sendi þann 2. júní 2009 fyrirspurn til Íslandspósts hf. vegna hinna nýju skilmála.

Í svari Íslandspósts kom m.a. fram að fyrirtækið hafi tryggt innihald pakkasendinga, skv. 40. gr. laga um póstþjónustu og hafi pakkasendingar innanlands lengst af verið tryggðar allt að 22.500 kr. Sú upphæð hafi ekki breyst síðan árið 1995 á sama tíma og almennt verðlag hafi hækkað mikið.
Einnig tiltekur Íslandspóstur í svari sínu að áður en breyting á farmtryggingu hafi tekið gildi þann 1. maí s.l. hafi kostnaður við trygginguna verið innifalinn í verði sendingar. Með hinu nýja farmtryggingargjaldi sé gjaldið tekið út úr sendingarkostnaði og gert að sérstöku gjaldi.  Um leið hækki hámarksupphæð tryggingarinnar úr 22.500 kr. í 100.000 kr.

PFS telur að af ákvæðum 40. og 41. gr. laga um póstþjónustu leiði að sendendur eigi valkvæðan rétt um það að kaupa tryggingu vegna þeirra sendinga sem þeir senda með póstrekendum. Með því að setja sérstaka skilmála um farmtryggingar þar sem kveðið er á um skyldutryggingu á pakka innanlands er vali neytenda settar ákveðnar skorður og hann í raun þvingaður til að kaupa sérstaka tryggingu á sendingu, án tillits til hugsanlegs verðmætis hennar.

PFS birti ákvörðun sína um málið þann 21. janúar 2010.  Í ákvörðunarorðum segir:

Sérstök skyldubundin farmtrygging er ekki í samræmi við ákvæði 40. og 41. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.
Með vísun til 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, er lagt fyrir Íslandspóst að breyta umræddum skilmálum til samræmis við lögin þannig að póstsendingar njóti hlutlægrar skaðabótaverndar samkvæmt 40. gr. laganna, án töku sérstaks farmtryggingargjalds.

Ákvörðun PFS nr. 1/2010 um breytingu á skilmálum Íslandspósts um sérstaka farmtryggingu á bögglasendingum innanlands. (PDF)

Lög um póstþjónustu nr. 19/2002

 

 

Til baka