Hoppa yfir valmynd

Samevrópsk æfing í viðbrögðum við netárásum

Tungumál EN
Heim

Samevrópsk æfing í viðbrögðum við netárásum

8. október 2012

Eftir því sem netárásir í heiminum verða umfangsmeiri og víðtækari verður alþjóðleg samvinna mikilvægari til að hægt sé að bregðast við og verjast truflunum og tjóni sem slíkar árásir geta valdið. Þann 4. október síðastliðinn var haldin samevrópsk æfing í samhæfingu aðgerða gegn alvarlegum og útbreiddum netárásum í Evrópu.  Í æfingunni voru sviðsettar víðtækar og útbreiddar netárásir víða í álfunni.

Æfingin var skipulögð af Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópu, ENISA, og var henni fyrst og fremst ætlað að koma á og prófa samskipti og samvinnu viðbragðsaðila milli landa og innan hvers lands, við þær aðstæður sem geta skapast þegar um alvarlegar og umfangsmiklar netárásir er að ræða. Öll lönd Evrópusambandsins og EFTA löndin (Ísland, Noregur, Lichtenstein og Sviss) tóku þátt í æfingunni með einum eða öðrum hætti. 

Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS, skipulagði framkvæmd æfingarinnar hérlendis og tók þátt í henni fyrir Íslands hönd ásamt fyrirtækjum úr einkageiranum.  Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar taka virkan þátt í slíkri æfingu en árið 2010  var haldin fyrsta samevrópska æfingin gegn netárásum. Þetta var einnig í fyrsta sinn sem bæði opinberir aðilar og aðilar úr einkageiranum tóku sameiginlegan þátt í æfingu af þessu tagi. 

Þátttaka í æfingunni og skipulagning hennar hér innanlands er fyrsta stóra verkefni netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar, sem tekur formlega til starfa í nóvember nk.  Sveitin mun starfa samkvæmt sérstöku ákvæði sem innleitt var í fjarskiptalög með lagabreytingu í júní sl. (Sjá 8. gr. laga nr. 62/2012)
Í innanríkisráðuneytinu er nú unnið að reglugerð sem ætlað er að setja nánari fyrirmæli um starfsemi sveitarinnar.  Upplýsingar um hlutverk og markmið netöryggissveitarinnar er að finna á heimasíðu hennar, www.cert.is

Sjá einnig frétt um samevrópsku æfinguna, Cyber Europe 2012, á vef Net- og upplýsingaöryggisstofnunar Evrópu, ENISA.

 

 

Til baka