Hoppa yfir valmynd

Yfirlýsing frá PFS vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar varðandi Gagnaveitu Reykjavíkur

Tungumál EN
Heim

Yfirlýsing frá PFS vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar varðandi Gagnaveitu Reykjavíkur

16. september 2010

Vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2010 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. hafi brotið gegn fyrri ákvörðunum PFS frá 2006 og 2008 varðandi fjárhagslegan aðskilnað GR frá móðurfélagi sínu, Orkuveitu Reykjavíkur vill stofnunin árétta eftirfarandi:

Ákvarðanir PFS eru birtar opinberlega.  Ef viðkvæmar viðskiptalegar eða persónulegar upplýsingar koma fram í ákvörðunum stofnunarinnar eru þær felldar brott þegar ákvarðanir eru birtar öðrum en þeim sem upplýsingarnar tilheyra. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem kveðið er á um að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skuli birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd.

Einnig kveða upplýsingalög  nr. 50/1996 á um að veita skuli almenningi og þ.á.m. fjölmiðlum aðgang að gögnum úr stjórnsýslunni. Sú meginregla sætir þó takmörkunum samkvæmt 5. gr. þeirra laga. Þar segir:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Þau mál sem PFS fjallar um á sviði fjarskipta- og póstmála eru margbreytileg og umfang upplýsinga sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga, eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja,  misjafnlega mikið. Ákvarðanir sem varða fjárhagslegan aðskilnað fyrirtækja eru almennt þess eðlis að þær innihalda upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, þ.m.t. upplýsingar um fjármögnun (t.d. lánasamninga), arðsemiskröfu, viðskiptaáætlanir o.fl.  Því er þess gætt að slíkar upplýsingar séu felldar brott um leið og stofnunin uppfyllir skyldur sínar um opinbera birtingu ákvarðana sinna.

 

 

Til baka