Hoppa yfir valmynd

Samráð um skilmála vegna rafræns uppboðs á tíðniheimildum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum

Tungumál EN
Heim

Samráð um skilmála vegna rafræns uppboðs á tíðniheimildum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum

29. október 2012

Póst- og fjarskiptastofnun mun halda rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir farsíma- og farnetsþjónustu á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum í byrjun árs 2013. Gert er ráð fyrir að tíðniheimildir verði gefnar út á fyrsta ársfjórðungi sama árs.
PFS auglýsir hér með eftir samráði við hagsmunaaðila um skilmála vegna uppboðsins.

Boðin verða upp 60 MHz (2x30 MHz) í samtals fimm tíðniheimildum á 800 MHz tíðnisviðinu og 50 MHz (2x25 MHz) í fimm tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Tíðniheimildirnar fela í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota en leiða hvorki til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar yfir viðkomandi tíðnisviði. Tíðniheimildir á 1800 MHz verða tæknilega hlutlausar. Tíðniheimildirnar á 800 MHz tíðnisviðinu heimila notkun á hlutaðeigandi tíðnum fyrir farnetsþjónustu og eru bundnar ákveðnum lágmarkskröfum um útbreiðslu og uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu.

Á 800 MHz tíðnisviðinu verður um að ræða eina tíðniheimild, 2x10 MHz með 25 ára gildistíma, sem kveður á um að 99.5% lögheimila og sama hlutfall vinnustaða, með heilsársstarfssemi, á öllum fyrirfram skilgreindum landssvæðum, skuli eiga kost á tiltekinni háhraðafarnetsþjónustu. Aðrar tíðniheimildir á tíðnisviðinu eru 2x5 MHz, gilda til 10 ára og fela í sér skuldbindingu um að 93,5% lögheimila og vinnustaða, óháð landsvæðum, skuli eigi kost á tiltekinni háhraðafarnetsþjónustu.

Gagnaflutningshraði háhraðafarnetsþjónustunnar, fyrir þá aðila sem nú þegar eru handhafar tíðniheimilda til að veita UMTS þjónustu hér á landi og tengdra aðila, skal vera 2 Mb/s fyrir árslok 2014, 10 Mb/s fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s fyrir árslok 2020. Fyrir aðra aðila skal gagnaflutningshraði háhraðafarnetsþjónustunnar vera 10 Mb/s fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s fyrir árslok 2020

Ekki eru gerðar útbreiðslu- eða uppbyggingarkröfur í tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu.

Settar eru ákveðnar takmarkanir á stærð tíðnisviða sem sami aðili getur verið tíðnirétthafi að að afloknu uppboði. Hvað varðar 800 MHz tíðnisviðið getur aðili, og aðilar tengdir honum, ekki verið handhafar að stærra tíðnisviði en sem nemur 2x20 MHz. Á 1800 MHz tíðnisviðinu getur aðili, og aðilar tengdir honum, að afloknu uppboði ekki haft yfir að ráða tíðniheimildum til nýtingar en sem nemur 2x15 MHz í heild.

Umsögnum, athugasemdum og ábendingum skal skila til PFS fyrir lok mánudagsins 26. nóvember 2012.

PFS mun svara hagsmunaaðilum sem senda inn athugasemdir og í birta endanlega skilmála uppboðsins að því loknu. Mun birting skilmálanna auglýst í blöðum og á heimasíðu stofnunarinnar. Nánari upplýsingar vegna samráðsins veitir Unnur Kr. Sveinbjarnardóttir, netfang: unnur(hjá)pfs.is.

Ásamt drögum að skilmálunum sjálfum eru eftirfarandi fylgiskjöl hluti af skjalinu hér fyrir neðan:

  • Fylgiskjal 1 - Þátttökublað
  • Fylgiskjal 2 - Yfirlit yfir 1800 MHz tíðnisviðið
  • Fylgiskjal 3 - Skýrsla Mannvits fyrir PFS: Mat á umfangi vegna uppboðs 4G tíðniheimilda

Sjá samráðsskjalið í heild:
Drög að skilmálum, ásamt fylgiskjölum, vegna uppboðs á tíðniréttindum fyrir farnetsþjónustu á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum
(PDF, 8,208 MB)

Hér fyrir neðan er hægt að skoða fylgiskjal 3, skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits eingöngu:
Mat á umfangi vegna uppboðs 4G tíðniheimilda, skýrsla - umfang og kostnaðarmat, unnið fyrir Póst- og fjarskiptastofnun, 29. okt. 2012 (PDF)

 

 

Til baka