Hoppa yfir valmynd

Gjöld fyrir alþjónustu innan eðlilegra marka - ný verðkönnun

Tungumál EN
Heim

Gjöld fyrir alþjónustu innan eðlilegra marka - ný verðkönnun

3. júlí 2006

Samkvæmt 20. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) skylt að hafa eftirlit með gjaldskrám fyrir alþjónustu. Stofnunin á að sjá til þess að alþjónusta sé veitt á eðlilegu og viðráðanlegu verði og fylgjast með því að verðþróun sé í samræmi við kaupmátt innanlands. Auk þess má hafa hliðsjón af verðlagningu í viðmiðunarríkjum.

Til alþjónustu í fjarskiptum heyrir m.a. talsímaþjónusta, rekstur almenningssíma og upplýsingaþjónusta um símanúmer 118 og hvílir sú kvöð á Símanum sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk að veita þessa þjónustu.

Til að framfylgja eftirlitsskyldunni gerði PFS verðsamanburð á símtölum úr almenningssímum og símtölum í 118 hér á landi og í viðmiðunarríkjum, en varðandi almenna talsímaþjónustu var stuðst við verðsamanburð breska greiningarfyrirtækisins Teligen.

Í ljós kom að verð fyrir þessa þjónustu hér á landi er innan eðlilegra marka. Í alþjóðlegum verðsamanburði Teligen á árlegum kostnaði fyrir meðalnotkun á heimilissíma innan OECD landa er Ísland með þriðja lægsta kostnað á eftir Kanada og Bandaríkjunum. Ef tekið er mið af meðalnotkun heimilissíma á Norðurlöndunum er ódýrast hér á landi að nota heimilissíma. Gjaldskrá fyrir almenningssíma er lægri hér á landi en í Noregi og Svíþjóð og gildir þá einu hvort hringt er úr almenningssíma í fastanetssíma eða farsíma. Þá kemur fram að einnar mínútu símtal í upplýsingaþjónustuna 118 er ódýrara hér á landi en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en tvöfalt dýrari en í Lúxemborg og á Grikklandi.


Í ljósi þessarar niðurstöðu sér PFS ekki ástæðu til að ákveða hámarksverð fyrir talsímaþjónustu, símtöl úr almenningssíma eða símtöl í 118, eins og heimild er til í 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga.

Sjá verðsamanburð (pdf-snið) 

Til baka