Hoppa yfir valmynd

PFS áframsendir Já-málið til Samkeppniseftirlitsins

Tungumál EN
Heim

PFS áframsendir Já-málið til Samkeppniseftirlitsins

28. nóvember 2011

Með úrskurði sínum nr. 4/2011 frá 17. nóvember 2011 felldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úr gildi 4. tölulið í þeim alþjónustukvöðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði lagt á Já upplýsingaveitur ehf. með ákvörðun PFS nr. 22/2011 þess efnis að fyrirtækinu væri skylt að veita aðgang að gagnagrunni símanúmera á kostnaðarverði að viðbættri hæfilegri álagningu.

Póst- og fjarskiptastofnun telur að þessi niðurstaða hafi afar óæskileg áhrif á þróun samkeppni í miðlun símaskrárupplýsinga og gangi gegn markmiði alþjónustukvaða, samkvæmt fjarskiptalögum, um að tryggja samræmdan og heildstæðan gagnagrunn um öll símanúmer. Þar sem aðgangskvöðin er ekki lengur í gildi er hugsanlegt að áhugasamir þjónustuveitendur komi sér upp eigin símskrárgagnagrunni með samningum við fjarskiptafyrirtæki, en það kann að ógna heildstæði skrárhaldsins, t.d. með tilliti til bannmerkinga. Að öðrum kosti þurfa þjónustuveitendur að kaupa aðganginn af Já upplýsingaveitum sem frumniðurstöður kostnaðargreiningar PFS hafa leitt í ljós að sé verðlagður langt umfram kostnaðarverð og gefi því ekki möguleika á eðlilegum heildsöluviðskiptum.

Af úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála má hins vegar ráða að sú staða sem nú er uppi varðandi gagnagrunn Já upplýsingaveitna ehf. kunni hugsanlega að brjóta í bága við samkeppnislög, en nefndin vísar til þess að hugsanlega sé hægt að mæla fyrir um aðgangskvöð að gagnagrunni Já upplýsingaveitna ehf. á grundvelli samkeppnislaga, að vissum skilyrðum uppfylltum.

Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af 6. gr. sameiginlegra reglna Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins nr. 265/2001 um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að áframsenda kvörtunum málsaðila, ásamt viðeigandi málsgögnum, til meðferðar og úrlausnar Samkeppniseftirlitsins. Er það í samræmi við þá leiðbeiningaskyldu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga sem felst í því að koma málum til úrlausnar rétts aðila innan stjórnsýslunnar.

 

Sjá tengd skjöl:

 

 

Til baka