Hoppa yfir valmynd

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar PFS af kröfum Póstmarkaðarins

Tungumál EN
Heim

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar PFS af kröfum Póstmarkaðarins

24. janúar 2013

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) af öllum kröfum Póstmarkaðarins ehf. í máli þar sem fyrirtækið krafðist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 2/2011. Í úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun PFS nr. 16/2011 þar sem fjallað var um breytingar á dreifikerfi Íslandspósts, svokallað XY dreifikerfi.  Hafnaði dómurinn m.a. að skilmálarnir hafi verið ómálefnalegir, að meðalhófs og jafnræðis hafi ekki verið gætt, rannsóknarskyldu ekki verið sinnt og að skilmálarnir hafa brotið gegn lögum um póstþjónustu nr. 19/2012 eða 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Hafnaði héraðsdómur því að skilmálarnir væru ómálefnalegir og ónauðsynlegir til að ná fram lögmætu markmiði, og taldi þá ekki brjóta gegn gæðakröfum reglugerðar nr. 364/2003 eða sjónarmiðum um jafnræði milli viðskiptavina fyrirtækisins.

Einnig var því hafnað að PFS, og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Jafnframt vísaði héraðsdómur til þess að samkvæmt viðskiptaskilmálum eiga stórnotendur kost á fleiri þjónustuleiðum og með hliðsjón af gögnum málsins, m.a. um markaðshlutdeild Póstmarkaðarins, er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að skilmálarnir hafi valdið eða muni valda alvarlegri röskun á starfsemi þeirra aðila sem þeir taka til eða að forsendur fyrir starfsemi fyrirtækja í póstmiðlun séu brostnar. Þá hafi Póstmarkaðurinn ekki leitt líkur að þeim fullyrðingum sínum að Íslandspóstur hafi með einhverjum hætti reynt að spilla fyrir eða stöðva starfsemi Póstmarkaðarins með umræddum breytingum á viðskiptaskilmálum. Að þessu virtu taldi héraðsdómur að ekki verði talið að með umræddum skilmálum Íslandspósts hafi með einhverjum hætti verið brotið á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði ekki séð að í þeim felist mismunun sem brjóti gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 eins og haldið var fram af hálfu Póstmarkaðarins í málinu.

Þá hafnaði dómurinn því að sú framkvæmd Íslandspósts að dagstimpla póst daginn eftir móttöku brjóti gegn ákvæðum 31. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem fjallar um dagstimplun póstsendinga. Einnig var því hafnað að brotið hafi verið á andmælarétti Póstmarkaðarins samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndi fjarskipta- og póstmála.

Niðurstaða dómsins er því sú að ekki séu efni til þess að verða við kröfu Póstmarkaðarins um að úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frá 10. október 2011 í máli nr. 2/2011 verði felldur úr gildi að öllu leyti eða að hluta. Póst- og fjarskiptastofnun er því sýknuð af öllum kröfum Póstmarkaðarins í málinu.

Sjá dóminn í heild:
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013

 

Til baka