Hoppa yfir valmynd

Breyting á samtengigjöldum Símans - ný ákvörðun

Tungumál EN
Heim

Breyting á samtengigjöldum Símans - ný ákvörðun

10. febrúar 2006

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur afturkallað ákvörðun sína frá 4. janúar sl. um breytingar á samtengingargjöldum Símans. Jafnframt hefur stofnunin tekið nýja ákvörðun í málinu, þar sem skýrt er kveðið á um afstöðu stofnunarinnar til hækkunar téðra gjalda.
 
Ástæða þess að PFS afturkallar ákvörðun sína frá 4. janúar er sú að ákvörðunarorð stofnunarinnar voru þannig orðuð að skilja mátti þau ein og sér með þeim hætti að stofnunin hafnaði öllum breytingum sem Síminn hafði tilkynnt þann 25. nóvember sl., en eins og kom fram í forsendum ákvörðunarinnar var ætlunin aðeins að hafna tilteknum liðum. Taldi PFS sér því rétt og skylt að afturkalla téða ákvörðun og taka nýja ákvörðun þar sem sú afstaða stofnunarinnar kemur fram með skýrari hætti að hafna hækkunum á kvöld-, nætur- og helgidagataxta fyrir umflutning, nýju tengigjaldi fyrir umflutning og hækkun á sérstöku gjaldi fyrir aðgangstengingu í föstu forvali.
 
Ekki eru gerðar athugasemdir við hækkun á kvöldtaxta fyrir lúkningu í NMT farsímanet Símans, né ýmiss tengigjöld sem með tilkynningu Símans voru færð inn í viðmiðunartilboðið.
 
Í bréfi PFS til Símans er því hins vegar hafnað að PFS hafi brotið reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt, rannsóknarreglu og jafnræði. Sjá nánar bréf PFS, dags. 25. janúar 2006, krafa um afturköllun og breyting á samtengingargjöldum og
ákvörðun PFS, dags. 25. janúar 2006. 
  
Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Ingvason forstöðumaður eftirlitsdeildar Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500.

Til baka