Hoppa yfir valmynd

Reiknivél PFS fyrir neytendur á vefinn snemma á næsta ári.

Tungumál EN
Heim

Reiknivél PFS fyrir neytendur á vefinn snemma á næsta ári.

18. desember 2009

Póst- og fjarskiptastofnun hefur undanfarna mánuði unnið að gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð á síma- og netþjónustu.  Tilgangur reiknivélarinnar er að auðvelda neytendum að leggja mat á hvaða síma- og netþjónusta hentar þeim best.

Fyrirmynd slíkrar reiknivélar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur.  Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða þar með neytendur við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar.

Við undirbúning reiknivélarinnar hefur verið lögð áhersla á samráð og upplýsingar til markaðsaðila, bæði fjarskiptafyrirtækja og fulltrúa neytenda, svo sem Neytendastofu, Talsmanns neytenda og Neytendasamtakanna.

Í júlí sl. voru fjarskiptafyrirtækin upplýst bréflega um að stefnt væri að því að koma reiknivélinni á Netið í lok ársins. Þar kom m.a. fram að ekki væri ráðgert að taka tillit til pakkatilboða, vinaafslátta né samþættingu heimasíma, internets og farsímanotkunar.

Þann 10. nóvember sl. fengu fjarskiptafyrirtækin send gögn um reiknivélina til samráðs.  Þar voru kynntar forsendur hennar og hvernig hún yrði upp byggð.  Fengu fyrirtækin frest til 27. nóvember til að senda inn athugasemdir.

Í lok samráðstímans barst talsvert af athugasemdum. Vega þar einna þyngst ábendingar varðandi áhrif mismunandi markaðshlutdeildar fjarskiptafyrirtækja og hringimynstur notenda á virkni reiknivélarinnar.  Þær athugasemdir sem bárust eru nú til skoðunar hjá stofnuninni.  Þegar þeirri vinnu ásamt tæknivinnu við gerð vélarinnar verður lokið, væntanlega snemma á næsta ári, verður reiknivélin sett í loftið.

Birting reiknivélarinnar og aðgengi verður auglýst með skýrum hætti af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar þegar þar að kemur.

 

 

Til baka